Afleveringen
-
Ástand Íslands um 1700. Lífshætti í bændasamfélagi er titillinn á nýrri bók þar sem kynntar eru nýjar rannsóknir á íslenska bændasamfélaginu í upphafi 18. aldar og fjallað um hugmyndir fræðimanna um það. Rætt er við Guðmund Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ, en hann er ritstjóri bókarinnar og höfundur sex greina og Ólöfu Garðarsdóttur, prófessor í sagnfræði og forseta Hugvísindasviðs HÍ, en hún er höfundur kafla í bókinni sem fjallar um mannfjölda, fjölskylduna og heimili á tímum harðinda.
-
Jakub Stachowiak, skáld, rithöfundur og bókavörður flutti nýverið opinn fyrirlestur í fyrirlestraröðinni Annars hugar sem haldin er á vegum námsgreinarinnar Íslensku sem annars máls í samstarfi við Árnastofnun og Málvísindastofnun Háskóla Íslands. Af því tilefni ræddi Hugvarp við Jakub um ástæður þess að hann flutti til Íslands og lærði ekki bara íslensku heldur hóf að rita ljóð og skáldsögur á íslensku.
-
Zijn er afleveringen die ontbreken?
-
Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Mála- og menningardeild HÍ, segir frá Japanshátíðinni sem haldin verður 27. janúar og tuttugu ára sögu hátíðarinnar.
-
Gagnagrunnur með handritum og bréfum íslenskra vesturfara hefur verið opnaður á vegum Árnastofnunar á slóðinni vesturheimur.arnastofnun.is. Þar munu þúsundir mynda af íslenskum handritum, bókum, bréfum og öðrum skjölum í söfnum og einkaeigu í Kanada og Bandaríkjunum koma fyrir sjónir almennings í fyrsta sinn. Hugvarp ræddi við Katelin Marit Parsons, aðjunkt í íslensku við Háskóla Íslands og ritstjóra nýja gagnagrunnsins.
-
Kynvillta bókmenntahornið – spjall um hinsegin bókmenntir er greinaflokkur á hugras.is, vefriti Hugvísindasviðs Hí sem hóf göngu sína fyrir ári síðan. Þar er skrifað um hinsegin bókmenntir og hinseginleikann í bókmenntum og lesið á skjön, skyggnst út fyrir síðurnar og skoðað það sem býr á milli línanna. Við ræddum við Ástu Kristínu Benediktsdóttur, lektor við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands og stofnandi kynvillta bókmenntahornsins, og Unni Steinu K. Karls, meistaranema við Íslensku- og menningardeild HÍ, en hán er höfundur þriggja pistla í Kynvillta bókmenntahorninu um trans persónur í íslenkum bókmenntum.
-
Nýverið var haldin við Háskóla Íslands lokaráðstefna öndvegisverkefnisins „Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking” sem stjórnað var af Sigurði Gylfa Magnússyni prófessor. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru vel virtir erlendir fræðimenn og af því tilefni settust þrír þeirra niður að ósk Hugvarps – hlaðvarps Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og ræddu m.a. um Íslandsheimsóknina og stöðu hugvísinda í Rússlandi, en tveir þessara fræðimanna eru brottfluttir Rússar. Það er Thomas Cohen, prófessor emeritus í sagnfræði við York Háskóla í Toronto, sem leiðir samtalið við hjónin Susönnu Pshizovu, prófessor í stjórnmálafræði við Mannheim Centre for European Social Research, og Mikhail Boytsov, prófessor í miðaldasögu við háskólann í Düsseldorf, en þau gegndu bæði stöðum við rússneska háskóla áður en þau fluttu af landi brott.
-
Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus í heimspeki við Háskóla Íslands, hélt hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings í Hátíðasal skólans föstudaginn 10. mars síðastliðinn. Erindið nefndi Vilhjálmur Samtalið sem siðferðilegt hugtak og í því velti hann fyrir sér samræðuhugtakinu, merkingu þess, margvíslegu hlutverki og mikilvægi.
-
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, Rósa María Hjörvar og Vera Knútsdóttir ræða um málstofuna Hetjur, kreppur og heimsveldi sem haldin verður á Hugvísindaþingi 2023. Þar verður hugað að dæmum úr samtímabókmenntum um hetjur í fjölbreyttu samhengi.
-
Steinunn Kristjánsdóttir og Rúnar Már Þorsteinsson segja frá málstofunni María mey – einn mesti áhrifavaldur allra tíma sem haldin verður á Hugvísindaþingi föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00.
María guðsmóðir er án efa áhrifamesta kona sögunnar, bæði sem söguleg persóna og ímynd. Í þessari þverfræðilegu málstofu guðfræðinga og fornleifafræðinga verða ýmsir þættir þessarar áhrifamiklu sögu skoðaðir, þar sem kastljósinu er einkum beint að birtingarmynd Maríu á Íslandi. -
Út eru komin fyrstu tvö bindin í ritröðinni Arfur aldanna eftir
Aðalheiði Guðmundsdóttur, prófessor í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Höfundur les fyrir okkur tvo kafla úr verkinu sem fjallar um fornaldarsögur, uppruna þeirra, útbreiðslu og einkenni. -
Þórdís Edda Jóhannesdóttir, sérfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar, fjallar um dr. Lars Lönnroth, en hann verður sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans fimmtudaginn 23. september kl. 15.
-
Erindi flutt á uppskeruhátíð Smásagna heimsins í Norræna húsinu nýverið, en Smásögur heimsins í fimm bindum er eitt viðamesta þýðingaverkefni sem ráðist hefur verið í á vegum íslenskrar bókaútgáfu á þessari öld. Á hátíðinni stigu á stokk fulltrúar ritstjórnar, þýðenda, forlags og gagnrýnenda, auk fjögurra nemenda úr ritlist og bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Viðburðurinn var hluti af dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík 2021.
-
Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands fagnar um þessar mundir hálfrar aldar starfsafmæli og af því tilefni hefur verið opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni um sögu stofnunarinnar. Sagnfræðingarnir Guðmundur Jónsson, Helgi Þorláksson og Ragnheiður Kristjánsdóttir ræddu um þessi tímamót.
-
Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum nefnist rannsóknarverkefni sem var unnið að á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Það eru prófessorarnir Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Finnur Dellsén og Vilhjálmur Árnason sem eru umsjónarmenn verkefnisins en fjórir heimspekinemar unnu við rannsóknina og Hugvarp ræddi við þrjá þeirra, þau Vigdísi Hafliðadóttur, Hörð Brynjar Halldórsson og Victor Karl Magnússon.
-
Þann 16. júní var Lexía, ný íslensk-frönsk veforðabók opnuð á slóðinni lexia.hi.is. Lexía er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við HÍ og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hugvarp spjallaði við þær Ásdísi Rósu Magnúsdóttur, forstöðumann Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Rósu Elínu Davíðsdóttur, orðabókafræðing við stofnunina og ritstjóra franska hluta orðabókarinnar.
-
Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki, fjallar um það sem kallað hefur verið önnur bylgja #MeToo á Íslandi.
-
Í dag ræðum við um Hermann Pálsson, einn áhrifa- og afkastamesta fræðimann á sviði íslenskra fræða á seinni hluta 20. aldar.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands efna til ráðstefnu í Veröld 26. maí næstkomandi, í tilefni af því að öld er liðin frá fæðingu Hermanns Pálssonar, prófessors við háskólann í Edinborg. Torfi H. Tulinius, prófessor og forseti Íslensku- og menningardeildar, segir okkur frá ráðstefnunni og Hermanni, en Torfi skrifaði grein um Hermann í nýjasta tölublaði Andvara. -
Ólafur Jóhann er einn þekktasti og vinsælasti rithöfundur landsins, en hann hefur jafnframt fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og áhugaverðar tengingar við Japan í gegnum störf sín í u.þ.b. áratug fyrir japanska stórfyrirtækið Sony. Nýjasta bók Ólafs, Snerting, sem var söluhæsta bók landsins árið 2020, gerist að miklu leyti á japönskum veitingastað í London og í Japan. Í höfundarspjallinu fáum við bæði að skyggnast inn í störf Ólafs Jóhanns hjá Sony, sem meðal annars fól í sér alþjóðlega markaðssetningu á PlayStation leikjavélinni, og ræða viðfangsefnin í nýju skáldsögunni Snertingu. Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum, leiðir samtalið við Ólaf Jóhann.
Viðburðurinn var hluti af hinni árlegu Japanshátíð sem er skipulögð af Japönskudeild Háskóla Íslands. Hátíðin er haldin í samstarfi við Sendiráð Japans á Íslandi, Íslensk-japanska félagið og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. - Laat meer zien