Afleveringen

 • Nöfnurnar Margrét Lóa og Margrét Lára eru að vinna verkefnið ?Dýnamík? í sumar þar sem þær rýna í vinkonusambönd og hve fjölbreytt þau geta verið. Covid bylgjur síðasta árs hafa dregið fram dýrmæti vináttunnar þar sem við öllu urðum að takmarka hverja hverja við hittum. Í sumar eru þær búnar að taka viðtöl við fólk af öllum aldri og grundvallast þátttaka ekki við kyn einstaklinga. Verkefnið mótast þannig af viðtölum og ljósmyndum sem verða loks sett saman í bók í lok sumarsins. Margrét og Margrét eru sjálfar æskuvinkonur og þær komu í þáttinn og sögðu frá þessu áhugaverða verkefni. Lesandi vikunnar var Stefán Ingvar Vigfússon, hann er tæknistjóri Tjarnarbíós, grínari og skrifar bakþanka í Fréttablaðið. Hann frá því hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og svo í lokin hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Það er einstaka sinnum sem við fáum tvö föstudagsgesti í þáttinn og í dag var það einmitt uppá teningnum. Þeir félagar Jogvan Hansen og Friðrik Ómar komu í þáttinn en þeir eru við það að leggja í langferð í kringum landið á húsbíl og halda hátt í 30 tónleika í leiðinni. Þeir fóru í slíka tónleikaferð í fyrra sem þeir kölluðu Sveitalíf og voru svo heppnir að ná henni í glugganum sem opnaðist síðasta sumar, þegar samkomutakmarkanir leyfðu. Nú ætti ekkert að stoppa þá. Við ræddum við þá um vinskapinn, fortíðina og tónlistina í þættinum. Og það lá beint við að fá þá félaga, Friðrik Ómar og Jogvan til að sitja áfram með okkur í matarspjallinu. Jogvan er mikill ástríðukokkur og kann ýmislegt fyrir sér í eldhúsinu, því fengum við hann til þess að fræða okkur um færeyskan mat í matarspjallinu í dag. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Zijn er afleveringen die ontbreken?

  Klik hier om de feed te vernieuwen.

 • Nú þegar fleiri mega koma saman þá opnast dyrnar fyrir ýmislegt sem ekki hefur verið hægt að gera í talsverðan tíma. Til dæmis hafa húsfundir í húsfélögum að miklu leyti setið á hakanum, en nú eru húsfélög um allt land að vakna úr dvala og víða eru fyrirhugaðar eru framkvæmdir sem mikilvægt er að standa vel að. Við fengum Tinnu Andrésdóttur lögfræðing hjá Húseigendafélaginu til þess að fara aðeins yfir það helsta sem hafa þarf í huga en félagið er að fá mörg mál inn á borð til sín þessa dagana vegna galla á verkum verktaka og galla í fasteignakaupum þar sem hraðinn er mikill núna á fasteignamarkaðnum. Það er sannkölluð sumarbyrjun þegar sumarblómin eru komin á Austurvöll sem alltaf skartar sínu fegursta á þjóðhátíðardaginn 17.júní. Karen Hauksdóttir er skrúðgarðyrkjufræðingur og aðstoðarverkstjóri í hverfastöðinni við Fiskislóð. Hún og starfsfólk hennar hafa verið á fullu við að gróðursetja í beðin við Austurvöll og víðs vegar um borgina, en það eru í kringum 180 tegundir og yrki. Í fyrra var það hvítur litur sem var allsráðandi, við hringdum í Karen og spurðum hvaða litur varð fyrir valinu í ár. Á laugardaginn var ný gönguleið milli Stokkseyrar, Eyrarbakka og Þorlákshafnar formlega opnuð. Leiðin kallast Vitaleiðin og dregur nafn sitt að vitunum þremur, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar og svo Hafnarnesvita í Þorlákshöfn. Margrét Blöndal var við vígsluna og fylgdist með þegar klippt var á borðann. Hún talaði við Dagnýju Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðrulands, Gunnhildi Hrólfsdóttur og Sigrúnu Klöru Hannesdóttur úr stjórn Vitafélagins, Gísla H. Halldórsson bæjarstjóra Árborgar og Gest. Þór Kristjánsson forseta bæjarstjórnar Ölfuss. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Flatarmál hraunsins, sem runnið hefur úr gosinu í Fagradalsfjalli, hefur stækkað töluvert frá síðustu mælingu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands eða um rúmlega 60 þúsund fermetra á dag, eða sem samsvarar um níu knattspyrnuvöllum á degi hverjum. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur var gestur þáttarins í dag og við ræddum við hann um eldgosið í Geldingardölum frá mörgum hliðum. Nú á tímum snjalltækja og samfélagsmiðla þá veltum við því talsvert fyrir okkur hversu mikill tími fer í þessa blessuðu nýju tækni. Hversu lengi við störum á símana okkar og tölvurnar á dag og hvaða áhrif það hefur á okkar líf. Svo ekki sé minnst á börnin og unglingana, sem hafa alist upp með snjalltækin í höndunum og þekkja ekki þá tíma þegar þessi tækni var ekki til. Nú er auðvitað spurning hversu góðar fyrirmyndir við erum fyrir þau í þessu tilliti, hvort við þurfum ekki að byrja á því að breyta okkar hegðun fyrst, ef við viljum takmarka skjátíma barnanna. En svo eru kannski ekki allir sem vita að það eru til mjög nytsamleg forrit og tól, sem mörg hver fylgja með snjalltækjunum, þar sem hægt er að gera einmitt þetta. Sem sagt takmarka skjátíma og aðgengi að netinu. Bæði fyrir börnin og einnig fyrir okkur sjálf. Guðmundur Jóhannsson samskiptafulltrúi hjá Símanum kom í þáttinn og sagði frá þessu. Við fengum nýja hugvekju frá Kontóristanum Steinari Þór Ólafssyni, í dag. Í þetta sinn velti hann fyrir sér viðskiptaferðalögum. Kórónuveiran hefur sannað fyrir okkur að viðskiptatengt ferðalög sem tóku drjúgan tíma margra fyrir kórónuveiruna má vel leysa af hólmi með fjarfundum en Kontóristinn velti fyrir sér í dag hvernig þetta muni þróast nú þegar sér fyrir endan á þessu ferðabanni okkar. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Í síðustu viku fór af stað ný Ljósavinaherferð, en Ljósavinir eru styrktaraðilar Ljóssins. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess og þessir styrkir skipta höfuðmáli fyrir reksturinn sem er rekin að miklu leyti á þessum framlögum. Nánast allt í Ljósinu er fólki að kostnaðarlausu. Við töluðum við Viktoríu Jensdóttur verkfræðing sem greindist með krabbamein í lok síðasta árs. Við fengum Aron Daða Þórisson til þess að segja okkur frá sögu myndasagna á Íslandi og stöðu þeirra. En til stendur að gefa út nýtt myndasögutímarit á Íslandi á næstunni þar sem fjöldi íslenskra höfunda leggja til efni. Þetta form, myndasögur, eru á áhugaverðum tímamótum, nú þegar prentmiðlar eiga undir högg að sækja á sama tíma og vinsælustu kvikmyndir í heiminum í meira en áratug hafa sprottið upp úr myndasögum. Aron Daði fór betur með okkur yfir þetta í þættinum. Lesandi vikunnar í þetta sinn var leikstjórinn og leikarinn Vignir Rafn Valþórsson. Við fengum að vita hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og svo hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Föstudagsgesturinn þáttarins í þetta sinn var Helga Braga Jónsdóttir leikkona. Hún leikur eitt af aðalhlutverkunum í Saumaklúbbnum, nýrri íslenskri kvikmynd sem var frumsýnd fyrir stuttu og hefur einnig fengið afbragðsgóða dóma fyrir leik sinn í leikverkinu The last kvöldmáltíð sem frumsýnt var í Tjarnarbíói í vor. ?Helga Braga var stórfengleg í hlutverki Mömmu slash sirkússtjóra slash rass? eins og Snæbjörn Brynjarson orðaði það í leikdómi hér í Menningunni á RUV. Við ræddum við Helgu um upprunann, hvar hún er fædd og uppalin og ferðalagið í gegnum lífið til dagsins í dag. Matarspjallið var áskorun fyrir Guðrúnu og Gunnar í dag í fjarveru Sigurlaugar Margrétar sem er komin í sumarfrí og því þurftu þau að afgreiða matarspjallið sjálf. Sá sérréttur sem Gunnar er einna stoltastur af er svokallaður bröns eða dögurður. Bröns er uppáhaldsmáltíð Gunnars, því ákvað hann að ausa úr sínum takmarkaða viskubrunni því sem honum finnst skipta máli til að sú máltíð heppnist vel. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Það er fimmtudagur í dag og því var auðvitað sérfræðingur í þættinum. Í þetta sinn var það Gunnar Dofri Ólafsson, hann starfar fyrir Sorpu sem sérfræðingur í samskiptum og samfélagsvirkni og heldur úti hlaðvarpinu Leitin að peningunum. Í því fer hann yfir fjármál einstaklinga og fjölskyldna, heimilisfjármálin. Af hverju sumum virðist alltaf takast að spara pening á meðan öðrum gengur það mjög illa. Hann þekkir vel fasteignamarkaðinn, fasteignaviðskipti og fasteignalán. Í fyrri hluta þáttar fengum við hann til að segja okkur frá sínu starfi og því helsta sem hann hefur verið að fjalla um í hlaðvarpsþáttunum og í síðari hluta þáttar svaraði hann spurningum sem hlustendur okkar hafa sent inn á netfang þáttarins, mannlegi@ruv.is. Flestar þær spurningar sneru einmitt að fasteignaviðskiptum, sem eru svo stór kostnaðarliður í heimilisbókhaldi svo margra. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Erna Kristín 30 ára móðir, guðfræðingur og talskona fyrir jákvæða líkamsímynd, gaf út bókina Fullkomlega ófullkomin árið 2018 og árið 2020 gaf hún út bókina Ég vel mig, sem er ætluð börnum og unglingum. Skilaboðin eru að elska okkur eins og við erum og nú er Erna Kristín orðin andlit #mínfegurð herferðar Dove, og framundan eru fyrirlestrar þar sem farið verður farið yfir líkamsvirðingu, sjálfsmyndina, óraunhæfar staðalímyndir og skrefin sem færa okkur nær jákvæðri líkamsímynd. Við heyrðum í Ernu í þættinum. Deildarmyrkvi á sólu mun sjást á Íslandi á morgun. Í deildarmyrkva fer tunglið fyrir hluta sólarinnar, en ekki verður almyrkvi. Við hringdum í Sævar Helga Bragason, Stjörnu Sævar, og forvitnuðumst aðeins um þetta fyrirbæri og hvernig veðurútlitið er og hvar verður hægt að sjá deildarmyrkvan á landinu. Fyrir um það bil 30 árum ákvað Gerður Jónasdótti þá 63ja ára ekkja, búsett á Hellu, að byggja sér kúluhús. Það gekk eftir og að auki hóf hún að gróðursetja trjáplöntur sem nú eru orðnar að skógi. Fyrir rúmu ári keyptu hjóni Birna Berndsen og Páll Benediktsson húsið og landið og eftir nokkra daga verður þar opnað kaffihús. Þau ætluðu reyndar að opna það fyrir ári, en það frestaðist eins og ýmislegt annað sl. eitt og hálfa árið, en nú er sem sagt allt klárt. Margrét Blöndal fór og heimsótti þau Birnu og Pál í gær og fékk að skoða Auðkúlu, paradísina hennar Gerðar við Ytri Rangá. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Sigríði Pétursdóttur kvikmyndafræðingur kom í þáttinn í konunglegt spjall en fyrir nokkrum dögum fæddist nýtt barn, stúlka, í bresku konungsfjölskyldunni og breskir fjölmiðlar hafa velt mikið fyrir sér til dæmis nafni hennar, Lilibet Diana. Við höfum fjallað talsvert um hlaup og gönguferðir í þættinum og flest okkar hafa á einhverjum tímapunkti hlaupið, mismikið auðvitað. Það eru þó afar fáir hlutfallslega sem hlaupa miklar vegalengdir, eins og til dæmis heilt maraþon í einum rykk. Við hringdum í Búa Stein Kárason en hann kom sem sagt fyrstur í mark í Hengill Ultra hlaupinu um helgina, en það er sem sagt 160 kílómetrar, eða næstum því fjögur maraþonhlaup í röð. Það vöknuðu ótal spurningar um það að stunda svona ofurhlaup sem við dembdum yfir Búa Stein í símtalinu. Við fengum nýjan pistil af Kontóristanum, eða hugvekju, eins og höfundurinn Steinar Þór Ólafsson vill kalla þær. Þó ýmsir hafi spáð dauða skrifstofunnar með kórónuveirunni er ljóst að skrifstofan er ekki að fara neitt en líklega sé hún þó að breytast. Steinar Þór skoðaði í hugvekju dagsins hvernig framtíð skrifstofunnar lítur út og ræddi við sérfræðinga á því sviði, þau Matthías Ásgeirsson, stjórnendaráðgjafa í aðstöðustjórnun og Halldóru Vífilsdóttur, verkefnastjóra Austurbakka. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Við fengum í dag í þáttinn þær Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Önnu Maríu Björnsdóttur. Þær eru í forsvari fyrir hóp á facebook sem kallar sig ?Við ætlum ekki að eitra í sumar?. Þær segja að þeim mun meira sem þær kynna sér þessi eiturefni þeim mun meira máli skiptir það þær að hætt sé að nota þau bæði til að vernda lífræðilegan fjölbreytileika og einnig til dæmis börn og barnshafandi konur. Við fengum þær Önnu og Jóhönnu til að fara betur yfir þetta í þættinum. Við sögðum frá tilraunaverkefni um aukna þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi í Breiðholti sem hefur beinst að börnum og unglingum af erlendum uppruna og börnum sem eiga erfitt bakland heima fyrir. Verkefnið hefur gengið vel en um 170 krakkar hafa nýtt tækifærið og hafið íþrótta- eða tómstundaiðkun að eigin vali. Verkefnið miðar að því að ná ungmennum í virkni sem fyrst. Komið hefur verið upp gjaldfrírri frístundarútu sem auðveldar börnum og ungmennum að komast á milli skóla og íþróttaæfinga. Þráinn Hafsteinsson verkefnastjóri frístunda og félagsauðs í Breiðholti kom í þáttinn og sagði okkur betur frá verkefninu. Lesandi vikunnar í þetta sinn var leikkonan Birgitta Birgisdóttir, hún leikur Ástu Sigurðardóttur í leiksýningunni Ásta sem verður frumsýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í haust. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Linda Pétursdóttir. Hún varð auðvitað Ungfrú Heimur árið 1988 og ferðaðist í kjölfarið út um allan heim. Hún stofnaði Baðhúsið tuttugu og fjögurra ára og átti og rak það í tvo áratugi. Hún er með BA gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði og hún er lærður lífsþjálfi. Þessa dagana er hún er sem með heilsuáskorun fyrir allar konur, sem hún kallar Lífið með Lindu Pé og nýtt samnefnt hlaðvarp. Við fengum Lindu til að segja okkur frá því hvar hún er fædd og uppalin og ferðuðumst svo með henni í gegnum lífið til dagsins í dag. Matarspjallið var á sínum stað í þættinum og í dag kom Sigurlaug Margrét með góðan gest með sér. Bergsteinn Sigurðsson umsjónarmaður Menningarinnar í sjónvarpinu. Hann sagði okkur frá uppáhaldsmatnum í æsku þegar hann var að alast upp á Vestfjörðum og svo kom hann með mjög skemmtilega matreiðslubók með sér, Lostæti með lítilli fyrirhöfn, sem var gefin út árið 1981 á Íslandi, en kom fyrst út áratug áður í Bretlandi. Í henni eru 336 yndislegar uppskriftir með ljósmyndir af hverjum rétti. Maður fer bókstaflega aftur í tímann við að fletta þessari bók. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Sérfræðingur Mannlega þáttarins í dag var Elísabet Reynisdóttir næringafræðingur og næringaþerapisti. Eftir erfið veikindi fór hún til Danmerku að læra næringaþerapíu í rauninni til að bjarga sjálfri sér eins og hún segir sjálf. Eftir að hún kom aftur til Íslands lærði hún næringarfræði í H.Í. ogkláraði þar master í næringarfræði. Hún hefur lagt áherslu á lífsstílstengda sjúkdóma og næringu og hún segir að hún hafi uppgötvað í starfi sínu hvað andlegi þátturinn er mikilvægur þegar kemur að heilsutengdum ákvörðunum. Elísabet sagði okkur sína sögu og frá starfi sínu í fyrri hluta þáttar og í síðari hlutanum svaraði hún spurningum sem hlustendur sendu inn í netfang þáttarins mannlegi@ruv.is UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Þær stöllur Bryndís Jónsdóttir og Svanhildur Eiríkisdóttir halda úti hlaðvarpinu Af hverju vissi ég það ekki. Þar taka þær fyrir málefni sem ekki er venjulega fjallað mikið um og nú nýlega hafa þær verið með sex þætti um Breytingaskeiðið, fimm um breytingaskeið kvenna og einn um breytingaskeið karla. Við ræddum við þær Bryndísi og Auði í þættinum í dag. Það ætti ekki að þurfa að kynna þá kumpána Örn Árnason, leikara, grínara og söngvara og Óskar Pétursson söngvara. Þeir hafa þekkst í um tuttugu ár, kynntust á tónleikum Álftagerðisbræðra og fundu fljótt út að þeir áttu til dæmis vel saman í húmor auk söngsins. Þeir verða með tónleika um helgina í tilefni Sjómannadagsins og við forvitnuðumst um þá félaga í þættinum í dag, Örn var hjá okkur í hljóðveri í Efstaleitinu og Óskar var í hljóðveri RÚVAK fyrir norðan. Laugardaginn 19. júní verður haldið málþing í Skálholti sem ber yfirskriftina Biskupsfrúrnar í Skálholti. Þar munu þau Hildur Hákonardóttir listakona og rithöfundur og Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup fjalla um biskupsfrúrnar í Skálholti en Hildur skrifaði einmitt bækurnar Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? Boðið verður upp á hádegisverð í anda fyrri alda, sögugöngu og líflegar umræður. Daginn áður, þann 18. júní verður einnig viðburður í Skálholti þar sem efnt verður til gönguferðar í minningu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskups. Margrét Blöndal fór í menningarheimsókn til Sr. Kristjáns Björnssonar vígslubiskups í Skálholti í þættinum. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Eitt af einkennum sumarsins er lyktin af nýslegnu grasi. Flestum þykir hún afskaplega góð en ekki er eins víst að allir kunni að sinna garðinum sínum almennilega, sem sagt grasfletinum. Þar getur ýmislegt sett strik í reikninginn, eins og til dæmis mosi, fíflar og fleira. Því var ekki úr vegi að fá í þáttinn lærða manneskju, sem titlar sig í símaskránni grasvallatæknifræðing. Hann heitir Bjarni Þór Hannesson og lærði í Skotlandi og Englandi, hefur séð um golfvelli og knattspyrnuvelli og gaf góð ráð til garðeigenda sem viðkoma grasinu. Nýlega skrifaði Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum ? Save the Children á Íslandi, grein í fjölmiðla þar sem hún vekur athygli á ósamræmi í sumarfríum foreldra og grunnskólabarna. Flestir foreldrar fá mest 6 vikur í sumarfrí en börn á grunnskólaaldri eiga hins vegar tvöfalt lengra frí. Barnaheill hvetja stjórnvöld og ekki síst sveitarfélög til að taka til skoðunar að koma á uppbyggilegum úrræðum fyrir börn á yngsta stigi grunnskóla í skólafríum og hvetja jafnframt fyrirtæki og stofnanir að sýna foreldrum skilning þegar hliðra þarf til vegna frídaga barna. Margrét Júlía kom í þáttinn í dag. Við fengum annan pistilinn í nýrri röð af Kontóristanum frá Steinari Þór Ólafssyni. Í þetta sinn veltir hann fyrir sér mötuneyti og mat í fyrirtækjum, sem spila auðvitað mikilvægt hlutverk í starfsánægju og afköstum og geta jafnframt dregið úr veikindum og fjarveru starfsmanna. En ætli mötuneyti spili stærra hlutverk en bara að gefa svöngu starfsfólki að borða? Þetta skoðaði Steinar Þór kontórsti í pistli dagsins, þar sem hann talaði meðal annars við Olgu Eir Þórarinsdóttur, hjúkrunarfræðing hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og Alexöndru Kjeld, umhverfisverkfræðing hjá Eflu verkfræðistofu UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Félagið Einstök börn hlaut á föstudaginn fjölskylduviðurkenningu SOS Barnaþorpanna á Íslandi árið 2021. Eliza Reid, forsetafrú og velgjörðasendiherra SIS afhenti Guðrúnu Helgu Harðardóttur framkvæmdastjóra Einstakra barna viðurkenninguna, en SOS Barnaþorpin hafa veitt þessa viðurkenningu frá árinu 2016 til aðila sem vinna mikilvæg störf í þágu barnafjölskyldna á Íslandi. Guðrún Helga kokm í þáttinn í dag ásamt Ólöfu Þóru Sverrisdóttur, sem er móðir barns sem er skjólstæðingur félagsins og einnig var Hans Steinar Bjarnason upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna með í för. Nú streyma ferðamenn til landsins og spurning hve stór hluti af þeim skilar sér austur, vestur, norður og á Suðurlandið. Við slógum á þráðinn norður í land til Ólafar Hallgrímsdóttur bónda í Vogabúi við Mývatn en þar er hið fræga Vogafjós. Þar er hægt er að fá sér ljúffengan málsverð og horfa á kýrnar í fjósinu um leið. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Ármann Jakobsson, prófessor í íslensku og rithöfundur. Við fengum að vita hvaða bækur Ármann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Í kvöld verður heimildamynd um Ljótu Hálfvitana sýnd í sjónvarpinu hér á RÚV og svo beint á eftir henni verður sýnd upptaka af tónleikum með þeim félögum frá Græna Hattinum. Ljótu hálfvitarnir eru flestir ættaðir frá Húsavík og þar á meðal bræðurnir Baldur og Snæbjörn Ragnarssynir. Snæbjörn var einmitt föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn, en hann er einmitt ásamt Baldri bróður sínum partur af annari hljómsveit, Skálmöld og þeir halda úti hlaðvarpsveitu sem þeir kalla Hljóðkirkjan og eru þar sjálfir með nokkra þætti, Snæbjörn til dæmis með viðtalsþátt sem heitir því einfalda nafni Snæbjörn talar við fólk. Matarspjallið með Sigurlaugu Margréti er á sínum stað. Hvað eigum við að gera þegar steikin brennur, sósan misheppnast og gestir á leiðinni til okkar ? Hvernig er hægt að bjarga steikinni? Og svo förum við yfir nokkra ódýra rétti sem hægt er að bjarga sér með svona á síðustu metrunum fyrir mánaðarmót. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Í dag er fimmtudagur og þá fengum við sérfræðing í þáttinn eins og aðra fimmtudaga í vetur. Í þetta sinn var það Guðrún Rakel Eiríksdóttir sálfræðingur og verkefnastjóri á sviði kortlagninga- og forvarna hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Hennar starf felst meðal annars í því að fara yfir beiðnir hjá fólki sem leitar til VIRK til þess að greina hvar vandinn liggur svo viðkomandi fái rétt úrræði, það er að segja að starfsendurhæfingarferillinn sé réttur fyrir viðkomandi. Þetta getur verið flókið, því skilgreiningar á hugtakinu kulnun eru til dæmis um 100 í erlendum rannsóknum. Hún segir að það sé mjög fjölbreyttur hópur sem leitar til VIRK vegna kulnunar í starfi, því skipti miklu að greina vanda hvers og eins rétt. Við fengum Guðrúnu Rakel til að útskýra þetta fyrir okkur betur í þættinum. Og í seinni hluta þáttarins svaraði hún spurningum sem hlustendur höfðu sent inn á netfang þáttarins, mannlegi@ruv.is. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Við fjölluðum í síðustu viku um herferðina á vegum Stígamóta, SJÚKÁST, sem er er forvarnaverkefni gegn kynferðisofbeldi fyrir unglinga sem hefur það að markmiði að fræða ungmenni um heilbrigð sambönd, mörk og samþykki. En í dag kom í þáttinn Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskonu Stígamóta, til að fara með okkur yfir stöðuna í starfseminni, en það hefur verið mikið álag undanfarið, langir biðlistar hafa myndast í kjölfar Covid og ekki síst eftir að önnur bylgja #metoo fór í gang fyrir skemmstu. Í kjölfarið hefur mikið gerst í umræðunni um ofbeldi í samböndum, kynferðisofbeldi, gerendameðvirkni, úrræði fyrir gerendur og fleira. Það var nóg um að ræða við Steinunni í þættinum. Við heimsóttum í dag eina lífrænt vottaða kaffihúsið á Íslandi, það er á Akranesi og heitir Café Kaia og það er Kaia Jónsdóttir eigandi þess sem tók á móti okkur í sólinni í gær. Hún sagði frá því hvernig það gengur fyrir sig að vinna eftir lífrænni vottun og gaf líka góð ráð um afþreyingu á svæðinu fyrir þá sem vilja kíkja í dagsferð á Skagann. Í dag var komið að síðasta Póstkortinu Magnúsi R. Einarssyni frá Spáni, að minnsta kosti í bili. Þetta er sjötugasta og níunda kortið og Magnús kvaddi hlustendur með frásögn af veru sinni á Spáni og þá sérstaklega frá spænskunámi sínu sem hefur gengið misjafnlega en mjakast samt í rétta átt. Hann sagði frá góðum tíma og vondum, en verst var að vera lokaður inni í hundrað daga þegar útgöngubannið ríki í fyrravor á Spáni. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Við fengum Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, í þáttinn í dag. Hún fór yfir starfsemi VIRK á ársfundi starfsendurhæfingarsjóðsins sem haldinn var rafrænt nýverið. Þar greindi Vigdís stöðuna og helstu áskoranir og talaði meðal annars um svokallaðan faraldur skertrar starfsgetu. Vigdís sagði meira frá þessu í þættinum. Saga holdsveikinnar á Íslandi er samofin sögu hennar í Noregi. Sjúkdómurinn barst til Íslands í byrjun fimmtándu aldar og í báðum löndum var hann upprættur nær sex öldum síðar. Síðasti holdsveikisjúklingurinn á Íslandi lést árið 1979. Við fengum dr. Erlu Dóris Halldórsdóttur til að glugga með okkur í stórmerkilegt heimildarit eftir hana, en í þeirri bók er baráttan gegn þessum hryllilega sjúkdómi rakin og sagt frá læknismeðferð, holdsveikisspítulum sem settir voru á fót og örlögum sjúklinga sem fjarlægðir voru af heimilum sínum og gert að búa í sérstökum einangrunarbúðum. Kontóristinn, Steinar Þór Ólafsson, er komin aftur á dagskrá Mannlega þáttarins eftir rúmlega árs hlé. Næstum ári áður en fyrsta kórónuveirusmitið var greint á Íslandi fjallaði Kontóristinn um króka og kima fjarvinnunar. Þá höfðu fáir einhverja reynslu af fjarvinnu en núna hafa nánast allir tekið þátt í þessari fjarvinnurannsókn sem lögð hefur verið fyrir heimsbyggðina. Nú, þegar sér fyrir endann á þessu tímabili, má spyrja sig hvað fólki og fyrirtækjum finnist um reynsluna. Þetta skoðaði Kontóristinn Steinar Þór í pistli dagsins. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

 • Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var leikkonan Saga Garðarsdóttir. Hún hefur skemmt landsmönnum bæði með uppistandi, í sjónvarpi, áramótaskaupum, í kvikmyndum, á leiksviði auk þess að hafa samið talsvert af gamanefni fyrir margvísleg verkefni, sjónvarpsþætti og skemmtanir. Við ræðum við hana um uppvöxtinn og æskuna og ferðalagið í gegnum lífið til dagsins í dag, en um síðustu helgi var frumsýnt leikritið Veisla í Borgarleikhúsinu þar sem hún fer á kostum, bæði á leiksviðinu og sem einn höfunda verksins. Saga deildi með okkur skemmtilegum sögum og sagði okkur frekar frá þessari nýju sýningu. Í matarspjalli dagsins var Eurovision þema þar sem lögð var megináherslan á ídýfur, eins og til dæmis ein útfærslan sem jafnan er kölluð því sérstaka nafni eðla. Sigurlaug Margrét hafði aldrei heyrt á eðlu minnst í þessu samhengi og létti talsvert að heyra að ekki var átt við bókstaflega og lifandi eðlu. UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON