Afgespeeld
-
Rafrænn bókaklúbbur, svo til óklipptur, fær að flakka í þessum þætti. Bókin er The Whole Brain Child eftir Daniel J. Siegel og Tinu Payne Bryson.
Fæst okkar myndu bara standa á öðrum fæti ef við gætum notað báða fætur. En hið furðulega er að mörg okkar – sérstaklega börn – nýta sér ekki mikilvæga hluta heilastarfsemi sinnar án þess þó að það sé meðvitað val. Vandinn er að hlutar heilans þroskast á mismiklum hraða og á ólíkum tímum, svo að barnið þekkir oft ekki heilastarfsemi sína frekar en margt okkar hinna fullorðnu. Þessu hefur verið líkt við tvílyft hús, fyrsta hæðin er neðri heilinn en önnur hæðin sá efri og þróaði en þegar barn fæðist er fyrsta hæðin fullbúin en efri hæðin hjóm eitt.
En hvernig getum við leiðbeint barni í áttina að nota allan heilann sinn? Við þurfum að byrja á að nota allan heilann okkar segja höfundar bókarinnar. Og meðfram öllu: Að byrja á að viðurkenna tilfinningar barna okkar.
Þær sem mættu og deildu ýmsum hugleiðingum voru Ágústa Margrét Arnardóttir, Arndís Anna Kristínardóttir, Guðrún Birna le Sage, Gyða Björg Sigurðardóttir, Hafdís Ósk Pétursdóttir, Inga Kristín, Sólveig Rós og Guðrún Inga Torfadóttir sem stjórnaði upptökum. -
Í þessum aukaþætti aðventunnar spjölluðum við mismeðvitaðir foreldrar um sýn okkar á jólahaldið og hvernig við höfum og erum enn að reyna að einfalda og endurhugsa hlutina til þess að koma á friðsælli aðventu fyrir alla fjölskylduna. Talið barst að uppákomum og skyldum foreldranna í alls kyns viðburðum, val á jólagjöfum, hefðum sem við viljum stundum henda á haugana og loks ræddum við skógjafir og tilvist jólasveinsins vel.
Þær sem tóku þátt að þessu sinni voru þær Elsa Borg Sveinsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir, Kristín Björg Viggósdóttir og Perla Hafþórsdóttir, ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur. -
Í þessum enn einum aukaþætti desember-mánaðar gátum við ekki staðist mátið að ná í skottið á Kristínu Maríellu áður en hún sneri aftur heim til fjölskyldu sinnar. Við ræddum um umræðuefni vikunnar á samfélagsmiðlum, að viðurkenna tilfinningar barnanna okkar.
Hvernig förum við að því að halda ró okkar yfir gráti barna og jafnvel reiði? Samfélagið okkar virðist reyna að bæla og koma í veg fyrir tjáningu á heilbrigðum tilfinningum. Sumir fullorðnir muna eftir að hafa verið refsað, þeim hótað eða jafnvel beitt ofbeldi þegar þeir grétu sem börn. Aðrir muna eftir foreldrum sem beittu mildari aðferðum til að stoppa grátinn þeirra, jafnvel með mat eða því að beina athyglinni annað. Þetta allt og fleira til bar á góma í þessu frábæra spjalli.