Afleveringen
-
Stóð Courtney Love, eiginkona Kurt Cobain, forsöngvara hinnar íkonísku grunge hljómsveitar, Nirvana, að baki dauða hans árið 1994 vegna öfundar og erfðamála? Eða komu yfirvöld honum kannski fyrir kattarnef til að koma í veg fyrir slæm áhrif hans á æsku landsins? Í þættinum fjalla Eiríkur og Hulda um samsæriskenningarnar tengdar andláti Kurt Cobain en þær eru eins spegilmyndir í myrkri, þar sem harmræn persónusaga Cobain blandast ógnvekjandi frásögnum af vafasömum atvikum og óræðum vísbendingum
-
Stýrir leynileg valdaelíta alþjóðstofnunum á borð við ESB og SÞ á bak við tjöldin? Stóð hún kannski að baki bæði fyrri heimsstyrjöld og uppgangi nasismans til að skapa ringulreið og koma á alræði á heimsvísu? Í seinni þætti af tveimur um nýja heimsskipan ræða Hulda og Eiríkur þessa margbrotnu samsæriskenningu.
-
Stýrir leynileg valdaelíta heiminum? Mun hún hneppa veröldina í ánauð? Í þættinum leiða Hulda og Eiríkur hlustendur í gegnum sögu og einkenni hinnar frægu samsæriskenningar um Nýja heimsskipan (e. New World Order). Samkvæmt kenningunni hefur leynileg valdaelíta, oft nefnd „heimselítan,“ það að markmiði að koma á alræðisstjórn og hneppa heimsbyggðina undir alræði fárra útvalinna.
-
Stal djúpríkið í Bandaríkjunum forsetakjörinu úr réttkjörnum höndum Donalds Trumps árið 2020? Lágu djöfladýrkandi barnaníðingar í elítu Demókrataflokksins þar undir steini? Í síðari þætti um QAnon rekja þau Eiríkur og Hulda atburðina þann 6. janúar 2021 þegar stuðningsfólk Donalds Trumps, mörg hver keyrð áfram af trú sinni á QAnon samsæriskenninguna, ruddust inní þinghúsið í vanburðugri valdaránstilraun. Árásin á þinghúsið er skýrt dæmi um það hvernig samræmiskenningar geta leitt til upplausnar og átaka í samfélögum samtímans.
-
Stjórna djöfladýrkandi barnaníðingar Bandaríkjunum undir niðri? Er Donald Trump eina vörnin gegn illvirkjunum? QAnon-samsæriskenningin sem heldur slíku fram hófst sem pískur í myrkustu kimum Internetsins en þróaðist á ótrúlega skömmum tíma í hreyfingu sem átti þátt í einum afdrifaríkasta atburði í sögu Bandaríkjanna – árásinni á þinghúsið þann 6. janúar 2021. Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Skuggavaldið kryfja prófessorarnir Hulda Þórisdóttir og Eiríkur Bergmann forsöguna að þessari ótrúlegu hreyfingu og skoða hvernig hún náði að breiðast út frá undirheimum netmiðlanna til raunverulegra atburða.
-
Bar Díana prinsessa barn Dodi Al-Fayed undir belti þegar hún dó í bílslysinu í París? Skipulagði breska krúnan dauða Díönu til að koma í veg fyrir að fá múslima inn í konungsfjölskylduna? Í seinni þætti um dauða Díönu ræða Eiríkur og Hulda um örlagaríka atburði næturinnar þegar Díana dó í bílslysi. Þau ræða opinberar rannsóknir á slysinu og velta upp því sem enn þykir óljóst og hefur verið vant á myllu þeirra sem gjarnan gruna konungsfjölskylduna um græsku.
-
Stóð breska konungsfjölskyldan að baki andláti Díönu prinsessu? Eða kannski vopnaframleiðendur? Allt frá hörmulega bílslysinu í París hafa langsóttar samsæriskenningar lifað og fengið vængi, sem þau Eiríkur og Hulda ræða um í þættinum. Þau fjalla um baksöguna, endurgoldna ástina og ræða um prinsessuna sem fólkið elskaði en sem var sjálf svo ósköp óhamingjusöm.
-
Stóð aðskilnaðarstjórnin í Suður-Afríku að baki morðinu á Olof Palme? Var farþegaferjunni MS Estoina grandað vegna vopnaflutninga frá Rússlandi? Fórnuðu Satanistar fyrr á öldum norrænum börnum til þess að greiða eldgamla skuld við Ottomannveldið? Þótt Norðurlöndin virðist á yfirborðinu kannski ekki vera gróðrastía samsæriskenninga kennir þar þó ýmissa grasa, svo sem greina má af framanverðum spurningum. Í þættinum fjalla þau Hulda og Eiríkur um Norrænar samsæriskenningar og ræða jafnframt almennt um eðli og inntak samsæriskenninga. Þá er rýnt í það hvers vegna Íslendingar virðast trúaðari á pólitískar samsæriskenningar en íbúar annarra Norðurlanda.
-
Í Skuggavaldinu ræða prófessorarnir Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir saman um hvaðeina er viðkemur samsæriskenningum. Samfara örum samfélagsbreytingum hefur samsæriskenningum hratt vaxið fiskur um hrygg, svo sem í kjölfar Brexit, stjórnartíðar Donalds Trump og COVID-faraldursins. Samsæriskenningar eru þó ekki nýjar af nálinni, heldur hafa þær fylgt manninum frá öndverðu og nærast á þörf til að greina hulið skipulag í óreiðu.
Framleitt af Tal.