Afleveringen

  • Jarðneskar leifar eþíópísks prins og marmastyttur af sögufrægu grísku hofi eru meðal formninja sem geymdar eru í Bretlandi en eiga uppruna sinn á mun fjarlægari slóðum. Talsverður styr hefur staðið um skil á mununum, sem mörgum finnst að eigi að skila tafarlaust. Söfn heimsins geyma marga muni sem hvílir yfir ára samviskubits í ljósi sögunnar. En þetta er ekki alveg einfalt. Stundum eru rök þeirra sem geyma munina að þau séu að bjarga þeim frá eyðileggingu, sem sannarlega er oft raunin. En það er ekki endilega samasemmerki milli varðveislu um ákveðinn tíma og eign til frambúðar. Birta Björnsdóttir skoðaði málið og ræðir meðal annars við Hörðu Þórsdóttur, þjóðminjavörð.

    Í síðari hluta þáttarins ætlar Oddur Þórðarsona að greina vegferð eins frægasta sjónvarpsmanns heims, Dr. Phil, inn á hið pólitíska svið. Dr. Phil er hættur að sálgreina gesti í sjónvarpssal og virðist vera að reyna að endurforrita bandarísku þjóðina með pólitískum skilaboðasendingum á nýstofnaðri sjónvarpsstöð sinni, þar sem forseta Bandaríkjanna og forsætisráðherra Ísraels hefur brugðið fyrir, auk fleiri.

  • Forseti El Salvador, Nayib Bukele, segist vera svalasti einræðisherra heims. Hann hefur gjörbylt landinu á örfáum árum og nýtur fádæma vinsælda. Hann samdi við glæpagengin sem höfðu mikil áhrif og ítök í El Salvador og hefur gert landið með þeim öruggari í heimi, en þar var morðtíðni með því allra hæsta sem gerist. En þetta voru engar töfralausnir. Því nú er að koma í ljós hvað þessir samningar fólu í sér. Bukele hefur fangelsað tugi þúsunda á síðustu árum í nýju risastóru fangelsi sem nefnist CECOT og þannig liggja leiðir hans og Donalds Trump saman. Trump er byrjaður að senda mörg hundruð innflytjendur í fangelsi í El Salvador, án þess að mál þeirra séu tekin fyrir í Bandaríkjunum. Trump er mikill aðdáandi Bukele og má segja að hann dáist að einræðistilburðunum, en báðum hættir þeim til að ganga of langt til þess að ná markmiðum sínum og teygja lög og reglur í allar áttir.

    Börn, áhrifavaldar og samfélagsmiðlar eru umfjöllunarefni nýrrar heimildarmyndar, í þremur hlutum, sem er ný á streymisveitunni Netflix. Í þáttunum skyggnast áhorfendur inn í margar hliðar samfélagsmiðlanotkunar barna, hvaða áhrif miðlarnir geta haft á líf þeirra og jafnvel hvaða siðferðislegu spurningar vakna í oft grimmum raunveruleika. Hvenær ganga foreldrar of langt í að nýta börn sín til að afla tekna á samfélagsmiðlum og hvenær er friðhelgi barna jafnvel stefnt í hættu með myndbirtingum og fréttum? Því það hefur ekki alltaf góð áhrif á börn að vera í kastljósinu, hvort sem þau biðja um það sjálf eða verða það í gegnum foreldra sína.

  • Zijn er afleveringen die ontbreken?

    Klik hier om de feed te vernieuwen.

  • Hvað skýrir þá afturför sem hefur orðið undanfarið þegar kemur að réttindum transfólks og hvers vegna er það að gerast núna? Við ætlum að fjalla um réttindi þessa hóps og úr hvaða jarðvegi þetta bakslag sprettur. Hverjir standa í stafni þegar sífellt háværari hatursorðræða í garð trans fólks verður vart á samfélagmiðlum? Og af hverju er verið að setja lög um íþróttaiðkun transfólks? Við fáum til liðs við okkur þrjár konur til að sýna í stöðuna og baksöguna og leita lausna.
    Í seinni hlutanum ætlar Dagný Hulda Erlendsdóttir að segja okkur skemmtilega sögu. Karlskróna í Svíþjóð var miðdepill heimspressunnar um tíu daga skeið í október 1981. Þá hafði sovéskur kafbátur, sem talið er að hafi borið kjarnorkuvopn, strandað í skerjagarðinum. Þetta var í miðju kalda stríðinu og hefði vel geta orðið til þess að stríð hefði brotist úr milli Svíþjóðar og Sovétríkjanna. Nýlega kom út sænsk sjónvarpsþáttaröð þar sem fjallað er um þetta. Ýmsar kenningar voru um það hvers vegna kafbáturinn strandaði, sú algengasta að hann hafi verið við njósnir. Sjálfir sögðu reyndar Sovétmenn að siglingatækin hafi bilað. Þá voru einhverjir sem töldu að áhöfnin hefði verið drukkin og þá kenningu halda framleiðendur þáttanna, sem heita Whiskey on the Rocks, sig við.

  • Pólverjar kjósa sér nýjan forseta um miðjan þennan mánuð og það má segja að það séu mikilvægar kosningar fyrir Donald Tusk, sem leiðir ríkisstjórnina, af því að hann lofaði miklu fyrir síðustu kosningar en það hefur gengið hægt að standa við öll kosningaloforðinn, og Tusk hefur oft skellt skuldinni á núverandi forseta, Andrzej Duda, og vonar sjálfsagt að hann fái vinveittari forseta. Þau Björn Malmquist og Margrét Adamsdóttir segja okkur frá frambjóðendum og kosningabaráttunni.

    Fyrir 35 árum skaust Pamela Anderson fram á sjónvarsviðið sem kyntákn - bæði í tímaritum og sjónvarpsþáttunum um Strandverðina sem slógu í gegn um allan heima. Nú er hún farin að leika aftur í kvikmyndum og hefur meira að segja verið tilnefnd til verðlauna. Það hefur gengið á ýmsu í hennar lífi þess á milli en hún hefur meðal annars notað stöðu sína til að berjast fyrir sínum hugðarefnum, meðal annars dýravernd og frelsun Julian Assange ritstjóra Wikileaks. Hallgrímur Indriðason rýnir í níu líf Pamelu Anderson.

  • Donald Trump virðist orðið meira alvara um að bjóða sig aftur til forseta Bandaríkjanna á næsta kjörtímabili, þrátt fyrir að stjórnarskráin heimili það ekki. Getur Trump boðið sig fram aftur? Gæti hann orðið einræðisherra Bandaríkjanna? Oddur Þórðarson kynnti sér málið.

    Dæmi eru um það að glæpagengi nái að leggja undir sig heilu landsvæðin eru þekkt meðal annars frá Suður-Ameríku, þar sem framleiðsla og dreifing á fíkniefnum hefur víða fjármagnað uppreisnar- og glæpahópa. Þegar ógnarstjórn Bashars al-Assads féll í Sýrlandi í desember síðastliðnum blasti við heiminum að Sýrland hafði verið fikniefnaríki, narco state, ríki þar sem stjórnvöld höfðu fjármagnað ríkissjóð að miklu eða mestu leyti með framleiðslu og dreifingu á amfetamíni, eða Captagon. Þróunin í Sýrlandi er vísbending um það hve miklir fjármunir eru á ferð í neðanjarðarhagkerfinu, en líka um það hvernig efnafræðingar eru komnir í lykilhlutverk í framleiðslu á vímuefnum víða um heim. Árni Matthíasson fjallar um málið.

  • Japan er eitt þriggja ríkja heims sem stunda hvalveiðar í atvinnuskyni. Hin tvö eru Ísland og Noregur. Við ætlum að forvitnast um hvalveiðar Japana og hvort Japanar borði almennt hvalkjöt. Það vakti töluverða athygli í janúar 2023 þegar greint var frá því að tæp tvö þúsund og sex hundruð tonn af íslensku hvalkjöti hefðu verið flutt til Japans. Dagný Hulda Erlendsdóttir ræddi við sérfræðinga og komst að því að stuðningur við hvalveiðar í Japan er ekki endilega byggður á því að fólk vilji borða kjötið, heldur að varðveita menningu.
    Í síðari hluta þáttarins ætlar Oddur Þórðarson að rýna í gervigreindarkapphlaupið sem er í fullum gangi.

  • Mannúðarvandi er hvergi meiri en á Gaza og í Súdan. Við förum þangað í Heimskviðum í dag. Helmingur þeirra rúmlega tveggja milljóna sem hafast við á Gaza eru börn. Fleiri en 50 þúsund hafa verið drepin á þeim átján mánuðum sem hafa liðið frá dagsetningunni örlagaríku, 7.október 2023. Greinendur og mannréttindasamtök telja reyndar að mun fleiri séu látin, líklega séu þúsundir líka undir rústunum sem finna má um alla Gaza-ströndina. Fleiri en 15 þúsund hinna látnu eru börn og Gaza er því líklega hættulegasti staður jarðar fyrir börn.
    Svo förum við til Kartúm, höfuðborgar Súdans, sem var um mánaðamótin frelsuð úr höndum hersveita RSF sem náðu þar yfirráðum 2023. Hershöfðinginn Abdel Fattah al-Burhan hefur síðustu daga farið sigri hrósandi um borgina og sagt að núna sé hún loksins frjáls. Og íbúum sem hafa síðustu mánuði og misseri búið við ofríki og umsátur RSF-sveitanna er létt. En það breytist líklega ekki mikið fyrr en valdasjúkir hershöfðingjar gefa eftir völdin og skref í átt að lýðræði verða tekin. Annars verður bara meira af einræði, ofbeldi og kúgun.

  • Stríðið í Sýrlandi tók snöggan endi eftir tæplega 14 ár í byrjun desember. Eftir situr þjóð í sárum, helmingurinn á flótta og heil kynslóð sem ólst upp við borgarastríð. Þótt síðustu mánuðir hafi ekki verið friðsamlegir með öllu eru Sýrlendingar farnir að þora aftur heim að vitja heimila sinna. Ólöf Ragnarsdóttir ræddi við mann sem býr hér á Íslandi en er í Sýrlandi núna eftir meira en áratug á flótta. Við heyrum hans sögu.
    Svo förum við til Úkraínu með Birni Malmquist, en hann fór nýlega til Kyiv og reyndar víðar um Úkraínu. Í borginni Poltava hitti hann Tetiönu Bardinu, sem er aðstoðarborgarstjóri í Poltava. Hún lýsir mannskæðri árás Rússa á skóla í borginni í fyrra og segir erfitt að búa við það að önnur slík árás geti verið gerð á hverri stundu. Björn hitti líka Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands í Póllandi og einnig gagnvart Úkraínu. Hann lýsir þeim verkefnum sem Ísland styrkir í Úkraínu. En síðustu þrjú ár hafa íslensk stjórnvöld varið um ellefu og hálfum milljarði króna í stuðning við Úkraínu, rúmlega helmingur þess hefur farið í hernaðarlega aðstoð og hinn helmingurinn í mannúðar- og efnahagslegan stuðning.

  • Við ætlum heimskautanna á milli í þættinum í dag og einnig að huga að írska tungumálinu.
    Í síðustu viku bárust fréttir af ásökunum gegn manni sem er í rannsóknarleiðangri þar suðurfrá ásamt öðrum. Hann er sakaður um kynferðisofbeldi og líflátshótanir gegn félögum sínum í rannsóknarleiðangrinum, sem á að standa fram í desember. Okkur langaði að skyggnast betur inn í þennan heim og skoða betur hvaða áhrif algjör einangrun í svona langan tíma getur haft á fólk. Bjarni Pétur ræddi við Ólaf Ingólfsson sem hefur farið í fimm leiðangra á Suðurskautslandið og hann segir að það verði allir pínulítið skrítnir við þessar aðstæður.

    Getur hip hop bjargað írska tungumálinu? Það er góð spurning og kannski er tríóið Kneecap frá Norður-Írlandi með svarið við því. Írska er að minnsta kosti að ganga í endurnýjun lífdaga í rappi hljómsveitarinnar. Hljómsveitin hefur sagt markmið sitt vera að gera tungumálið aðgengilegra fyrir ungt fólk. En hvað er það við þessa hljómsveit sem hefur vakið nýjan áhuga á tungumálinu? Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir ræddi meðal annars við Áine Mangaong tónlistarfræðing um hljómsveitina, af hverju hún er einstök og írska tungumálið.

    Þá heyrum við í Hallgrími Indriðasyni, fréttamanni, sem hefur dvalið á Grænlandi síðust daga. Það hafa verið viðburðaríkir dagar þar, í gær kynnti ný ríkisstjórn samstarfssáttmála sinn og varaforseti Bandaríkjanna, J.D. Vance, sótti landið heim.

  • Í þættinum í dag fjöllum við um vafasama viðskiptahætti svissneska fyrirtækisins Nestlé með ungbarnavörur, bæði í nútíð og fortíð. Fyrirtækið framleiðir meðal annars KitKat-súkkulaðið, Nespresso og Smarties en líka matvörur fyrir ungbörn, til dæmis þurrmjólk. Og sums staðar er sykri bætt í þurrmjólkina, og þess ekki getið á umbúðunum. Það er til dæmis gert víða í Afríku. Við rýnum í skýrsluna, „Hvernig Nestlé fær börn í lágtekjuríkjum til að ánetjast sykri.“

    Svo snúum við okkur að ástinni á gervigreindaröld. Gervigreindin er heillandi og óhugnaleg á sama tíma. Gervigreindarspjallforrit hafa þróast á ógnarhraða og nú er hægt að eiga samtöl við spjallmenni og jafnvel ástarsambönd. Við heyrum sögu konu sem á í slíku sambandi í þættinum. Sænskir forritarar bjuggu til stefnumótaforrit sem heitir Baibe, þar sem hægt er að mynda ástarsamband við gervigreindina. Róbert Jóhannsson ræddi við annan stofnenda forritsins og prófessor í félagsfræði um hvort gervigreindin sé það sem koma skal þegar ástin og nándin er annars vegar.

  • Tónlistarmaðurinn og viðskiptamógúllinn P. Diddy á yfir höfðu sér rúmlega fjörtíu ákærur vegna kynferðisofbeldis, mansals, nauðgana og annars grófs ofbeldis. Réttarhöldin hefjast í byrjun maí. Stór og öflug skaðabótafyrirtæki hafa safnað frásögnum af ofbeldinu úr ýmsum áttum og fengu um 26.000 ábendingar um ofbeldi, flestar í gegnum samfélagsmiðla.

    Nokkur hundruð þeirra eru metnar trúðverðugar og um fjörtíu mál hafa verið höfðuð. Hóp- eða fjöldamálsóknir af þessu tagi eru algengar í Bandaríkjunum. Hafsteinn Dan Kristjánsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir bæði kosti og galla við málsóknir af slíku tagi. Helstu ókostirnir séu þeir að þær séu mjög timafrekar, sem komi bæði niður á þolendum og gerendum, og að fyrirtækin séu gjörn á að safna fleiri sögum af ofbeldi í hagnaðarskyni.

    Samtökin Læknar án landamæra hafa lýst Gaza sem heimsins hættulegasta stað fyrir börn. Ísraelsher hefur síðan haustið 2023 drepið þar tugi þúsunda, börn og fullorðna - og sært enn fleiri.

    Tíu börn á dag, að meðaltali, misstu annan fótinn eða báða, samkvæmt samantekt frá Barnaheillum 7. janúar í fyrra, þegar þrír mánuðir voru frá því Ísraelar hófu árásir. Margir læknar segjast aldrei hafa upplifað neitt þessu líkt áður.

    Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru hlutfallslega hvergi í heiminum fleiri börn sem hafa misst útlimi. Eitt þessara barna, Asil Al-Massri, er í dag átján ára og býr á Íslandi. Hún sagði Dagnýju Huldu Erlendsdóttur sögu sína.

  • Project 2025 var mikið í umræðunni í kringum forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fyrir áramót. Það er einskonar stefnuskrá næsta íhaldssama forseta. Donald Trump sagðist vita af stefnuskránni en ekkert meira en það en það hefur komið á daginn að hann hefur fylgt mjög mörgu af því sem þar kemur fram á þessum sex vikum sem liðnar eru af forsetatíð hans. Róbert Jóhannsson skoðaði málið og ræddi við eina þeirra sem kom að því að semja Project 2025.

    Nú er svo komið að eftir áratugi sem fjölmennasta þjóð heims hefur Kínverjum fækkað síðustu ár og um leið horfa þeir fram á svipuð vandamál og önnur þróuð ríki, það er fallandi fæðingartíðni og þjóðin eldist stöðugt með tilheyrandi álagi á Heilbrigðiskerfi og velferðarþjónustu. En hvað orsakaði þessa þróun? Er hún ólík því sem gerist í öðrum ríkjum sem ganga í gegnum efnahaglegan uppgang, og kannski fyrst og fremst: Hvaða áhrif getur þetta haft á Kína og hið þéttriðna net alþjóðavæðingar? Þorgils Jónsson skoðaði málið.

  • Óskarsverðlaunin verða veitt aðfaranótt mánudags og nú eins og mjög oft áður eiga tilnefndar myndir og sögupersónur sér fyrirmynd og stoð í raunveruleikanum. Við ætlum í þættinum í dag að skoða nokkur slík dæmi í myndum sem eru tilnefndar að þessu sinni. Og þar kennir ýmissa grasa, söngvaskáldið Bob Dylan, háleynilegt páfakjör og ömurlegur aðbúnaður á upptökuheimili í Flórída, er meðal þess sem kemur við sögu í þætti dagsins.

  • Þjóðverjar ganga að kjörborðinu á morgun. Kosningarnar verða spennandi en þjóðernisflokkurinn Afd verður líklega næst stærstur. Fylgi við hann hefur aukist mikið, sérstaklega meðal ungra karla. Það dugir þó líklega ekki til að flokkurinn komist í stjórn, því hinir flokkarnir hafa flestir sameinast um að vinna ekki með Afd að loknum kosningum. Stjórnarmyndun gæti því bæði orðið flókin og tímafrek.
    Einræðisherrann Jósef Stalín er einn afkastamesti fjöldamorðingi mannkynssögunnar. Grimmd hans beindist ekki síst að  rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og hann lét handtaka og myrða fjölda patríarka, presta og munka og ríflega 40.000 kirkjur voru lagðar í rúst eða teknar undir aðra stafsemi á stjórnartíma hans. Það skýtur því skökku við að því er nú hreyft í Rússlandi að rétt væri að taka hann í dýrlinga tölu, en rímar reyndar við það á undanförnum árum og áratugum hafa vinsældir Stalíns aukist.

  • Joensen, Hansen, Jacobsen og Olsen voru algengustu ættar- eða eftirnöfnin í Færeyjum fyrir tíu árum. Núna er þetta að breytast og Færeyingar farnir að gera miklu meira af því að kenna sig við heimahagana. Eða gera eins og Íslendingar og kenna sig við foreldra sína og enda nöfnin á -son eða -dóttir. Við ræðum þessar breytingar við Hönnu í Horni, sendiherra Færeyja á Íslandi, Elsbu Danjálsdóttur, sem vinnur í sendiráðinu, og Pál Björnsson sagnfræðing.
    Svo fjöllum við um Indland, sem stefnir að því að verða stórveldi 21. aldarinnar. Mikilvægi Indlands alþjóðlega er að aukast og til marks um það var Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, með þeim fyrstu sem Trump Bandaríkjaforseti bauð til sín í Hvíta húsið. En það bíða margar áskoranir heima fyrir þrátt fyrir mikinn uppgang í efnahagslífinu síðustu ár. Við ætlum að fjalla um hvaða leiðir Indverjar geta farið til að þess að verða eitt af farsælustu stórveldum 21. aldarinnar.

  • Donald Trump er ekki fyrsti forseti Bandaríkjanna sem viðrar hugmyndir um kaup á Grænlandi. Harry Truman vildi kaupa Grænland í upphafi kalda stríðsins og Andrew Johnson skoðaði hugmyndina sömuleiðis á nítjándu öld. En er þá ekki hægt að ekki hægt að líta á hugmyndir Trumps um kaup á Grænlandi með tilvísun í söguna og forvera hans sem höfðu sambærilegan áhuga á þessu nágrannalandi? Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og blaðamaðurinn Árni Snævarr ræða við Birtu Björnsdóttur um sögulegan áhuga Bandaríkjamanna á Grænlandi og hið flókna samband Danmerkur og Grænlands.

    Undir lok síðasta árs bárust fregnir af því að Rússum hefði borist liðsauki í stríðinu gegn Úkraínu. Norðurkóreskar hersveitir voru mættar á vígvöllinn. Eins og flest allt sem viðkemur einræðisríkinu Norður-Kóreu eru hlutverk og þátttaka þessara hersveita sveipuð leynd. Ólöf Ragnarsdóttir rýndi í það sem hefur þó komið fram og ræddi við Jón Björgvinsson, sem hefur margoft farið á vígvöllinn í Úkraínu.

  • Áform um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi um framhald aðildarviðræðna Íslands hafa þegar vakið upp umræðu um kosti þess og galla fyrir okkur að verða hluti af þessu bandalagi. En hvernig er staðan á stækkunarmálum hjá Evrópusambandinu almennt? Nú eru að verða tólf ár síðan nýtt ríki bættist í hópinn og það eru meira en tveir áratugir síðan stóra stækkunin átti sér stað, þegar tíu ríki, flest þeirra í austurhluta Evrópu, fengu inngöngu. Það fækkaði svo auðvitað um eitt, þegar breskir kjósendur samþykktu útgöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016. Það voru einmitt fimm ár í gær frá því að Bretar gengu endanlega úr Evrópusambandinu. En hvernig standa þessi mál núna og við hverju mætti búast á næstu misserum, fari svo að við ákveðum að halda áfram með viðræður? Björn Malmquist fjallar um málið.

    Í síðari hluta þáttarins fjöllum við um aldarafmæli tímaritsins The New Yorker. fögnum aldarafmæli tímaritsins The New Yorker. Tímaritið er eitt það mest lesna í heiminum og þykir bæði veita innsýn inn í hugarheim New York-borga og Bandaríkjamanna um leið. Blaðið er frjálslynt í efnisvali sínu, en hampar á sama tíma því sem stendur tímans tönn og margt í blaðinu hefur lítið breyst þau 100 ár sem það hefur verið gefið út. Oddur Þórðarson flettir með okkur í gegnum 100 ára sögu New Yorker og ræðir við Halldór Baldursson, teiknara, sem á risastóra bók með öllum þeim mörgþúsund skrýtlum sem birst hafa í blaðinu.

  • Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, undirritaði í vikunni vel á annað hundrað forsetatilskipanir. Það gæti átt eftir að reyna á einhverjar þeirra fyrir dómstólum. Og líka hvaða heimildir Trump hefur í embætti sem er alltaf að verða valdameira og valdameira. Í þættinum í dag ætlum við að bera saman síðasta kjörtímabil Trumps og það sem er fram undan núna með Ólafi Jóhanni Ólafssyni rithöfundi og Hilmari Þór Hilmarsyni, prófessor við háskólann á Akureyri, sem ræðir Úkraínustríðið og möguleikann á friðarviðræðum. Hilmar óttast að Úkraínumenn þurfi að gefa eftir land til Rússa, þeir hafi yfirhöndina á vígvellinum og ef það verði samið, þá verði það mikið til á forsendum Rússa.
    Svo fjallar Hallgrímur Indriðason um andlega heilsu íþróttafólks. Það er aukin vitund um álagið sem fylgir því að vera afreksíþróttamaður og hvaða áhrif það getur haft á íþróttafólk. Hallgrímur talar við Hafrúnu Kristjánsdóttir, sálfræðing og deildarforseta íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík.

  • Tvítugur flautuleikari braust inn í náttúruminjasafn í Bretlandi og stal þaðan fjöðrum og fuglshömum af útdauðum fuglum. Þeir voru úr 150 ára gömlu safni manns sem nefndur er faðir lífeðlisfræðinnar. Ránsfenginn ætlaði flautuleikarinn að selja fluguhnýtingarmönnum um heim allan. Úr varð ein undarlegasta glæpasaga síðari tíma. Birta skoðaði málið og ræddi við Kirk Wallace Johnson, bandarískan rithöfund sem skrifaði bók um þessa merkilegu sögu. Þá er einnig rætt við Sigþór Stein Ólafsson, laxveiðileiðsögumann og umsjónarmann hlaðvarpsins Hylurinn.

  • Forstjóri tryggingafyrirtækis var skotinn til bana úti á götu í New York í Bandaríkjunum í síðustu viku. Morðið hefur vakið mikla athygli og það má segja að það veki athygli á brotalömum í bandaríska heilbrigðiskerfinu. Meintur morðingi var handtekinn í vikunni og morðið og ástæður þess verið mikið í fjölmiðlum alla þessa viku, og má segja að honum hafi verið hampað af mörgum. Aðallega af því að hann er að ráðast á kerfið, heilbrigðiskerfið bandaríska sem svo margir eru ósáttir við og sérstaklega gagnvart tryggingafyrirtækjum, þau græða á tá og fingri á meðan fólkið þarf að greiða fúlgur fjár fyrir heilbrigðisþjónustu. Og það er líka algengt að þeir sem brjóta reglurnar vekja athygli fólks og það vill skilja hvers vegna hann gerir þetta. Af því að þessi maður sem er í haldi, Luigi Mangione, var fyrirmyndarnemandi og fátt sem benti til þess að hann væri líklegur til að fremja morð.
    Í seinni hluta þáttarins förum við til Stonehenge en fyrr á þessu ári komu fram nýjar upplýsingar um þetta dularfulla og heillandi mannvirki á Salisbury-sléttunni í suðvesturhluta Englands. Upplýsingar sem varpa betra ljósi á uppruna steinanna sem mynda Stonehenge - en vekja líka upp áhugaverðar spurningar um hvernig það var skipulagt og reist fyrir um fimm þúsund árum. Í vísindagrein í Nature er sýnt fram á að einn af lykilsteinunum í þessu mannvirki - Altarissteinninn svonefndi, sem vegur um sex tonn - var fluttur alla leið frá norðurhluta Skotlands, um sjö hundruð og fimmtíu kílómetra leið. Nýjar upplýsingar, sem vekja upp nýjar spurningar. Það er Björn Malmquist sem ætlar að reyna að svara einhverjum þeirra. Eins og til dæmis, hvernig steinninn komst alla þessa leið og hvernig Stonehenge var reist á sínum tíma.