Afleveringen
-
Nú er byrjað að grafa ofan í sprungur í Grindavík, fólk er mætt til vinnu í fiskvinnslunni, bæjarbúar fá meiri tíma heima hjá sér og einhverjir eru farnir að hugsa um að jólaskreyta. Við höldum áfram að heyra hljóðdagbækur Grindvíkinga sem við höfum fylgt eftir í tæpar þrjár vikur eða alveg frá því því að bærinn var rýmdur 10. nóvember. Siggeir Ævarsson, Teresa Bangsa og Andrea Ævarsdóttir leyfa okkur að fylgjast með hversdeginum sínu. Fyrir fimmtíu árum birtist grein Þorsteins Gylfasonar, ?Að hugsa á íslenzku? sem þar sem hann skrifar meðal annars: ?Í fæstum orðum virðist mér eina vonin til þess að Íslendingur geti hugsað og skrifað yfirleitt vera sú að hann geti hugsað og skrifað á íslenzku.? Við ræðum við Loga Gunnarsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Potsdam í Þýskalandi, um þessa klassísku grein Þorsteins, um það að hugsa á íslensku, og það hvernig ensk tunga er farin að móta hugsun heimspekinga um allan heim.
-
Rauða serían hættir að koma út eftir 38 ár af starfsemi og 2300 titla. Rósa Vestfjörð er konan á bakvið örlagasögurnar, ástarsögurnar og sjúkrasögurnar. Við kíkjum í heimsókn til hennar í Grafarvoginn. Una María Magnúsdóttir, grafískur hönnuður, fer með okkur í skoðunarleiðangur um iðnaðarhverfi á Höfuðborgarsvæðinu og rýnir í skiltin með okkur. Og að lokum fer Kristján Guðjónsson í Kaupaekkertbúðina, þar sem allt er til sölu, og ræðir við Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Rán Flygenring, listakonur.
-
Zijn er afleveringen die ontbreken?
-
Kristínu Loftsdóttur mannfræðingi leiddist á safni á Kanaríeyjum þangað til hún kom auga á brjóstmyndir sem voru nokkuð kunnuglegar. Gipsafsteypur af Íslendingum og öðrum þjóðarbrotum endurspegla þá kynþáttahyggju sem var forsenda ofbeldis og rányrkju nýlenduveldavelda á 19. öld. Brjóstmyndirnar urðu kveikjan að rannsókn hennar og nýrri bók, Andlit til sýnis, sem er gefin út af Sögufélaginu. Við heyrum um aðra bók sem kemur út fyrir jólin. Goðsögur frá Kóreu og Japan inniheldur 10 goðsögur auk inngangs og skýringa sem setja sögurnar í samhengi við samfélag og menningu Kóreu og Japan. Við ræðum við aðstandendur bókarinnar, en ein þeirra er einmitt stödd í Suður-Kóreu við fornleifauppgröft. Helgi Grímur Hermannsson flytur sinn fyrsta pistil hér í Lestinni um minningar sem renna út í sjó, snjallsíma, samfélagsmiðla og ljósmyndir. ?Notkun ljósmynda á samfélagsmiðlum gerir augnablikið einnota og fljótlega ómerkilegt, miðillinn krefst þess að þú framleiðir meira. Og við njótum, eða innbyrðum öllu heldur, í einrúmi.? sagði Helgi Grímur.
-
Mörgum aðdáendum rapparans brá í brún þegar þau tóku eftir því að ný plata André 3000 innihélt einungis panflaututónlist. Davíð Roach var einn þeirra, hann rýnir í plötuna New Blue Sun. Við förum yfir kaosið í tækniheiminum, brottrekstur og endurráðningu Sam Altman, forstjóra gervigreindarfyrirtækisins OpenAi. Og að lokum heyrum við hljóðdagbækur þriggja Grindvíkinga, þeirra Teresu Bangsa, Siggeirs Ævarssonar og Andreu Ævarsdóttur.
-
Það er dimmt og það er ömurlegt veður. Það er kominn vetur og skammdegi. Lóa fer í Smáralindina og tekur púlsinn á þjóðinni. Er þunglyndið að hellast yfir fólk, eða er það bara farið að hlakka til jólanna? Í dómssal í Atlanta í Georgíuríki Bandaríkjanna er nú réttað yfir einum þekktasta rappara heims. 31 árs grammíverðlaunahafanum og íslandsvininum Yung Thug. Hann er kærður fyrir að standa fyrir skipulagðri glæpastarfsemi í glæpagenginu Young Slime Life. Rapparinn á að hafa notað metsölutónlist sína, útgáfufyrirtæki og samfélagsmiðla til að auglýsa gengið - sem er sakað um ótal glæpi, meðal annars þjófnað, ofbeldi, skotárásir, morð. Nú er tekist á hvort og þá hvernig megi nota textabrot úr lögum rapparans sem sönnunargögn í málinu. Við pælum í rapplögum og lögfræði. Sævar Andri Sigurðarson veltir fyrir sér af hverju við Íslendingar, sem skiljum og elskum að tala ensku, sækjumst ennþá frekar í tónlist á íslensku frekar en ensku. Af hverju listamenn sem notast við íslensku snerta frekar við hjartastrengjum almennings. Við spilum svo nýja and-sjókvíaeldisins frá Björk og Rosaliu.
-
Javier Milei, el loco, el peluca, klikkhausinn og hárkollan, öfga-hægrimaður sem er nýliði í Argentínskum stjórnmálum bar sigur úr býtum í forsetakosningum í vikunni. Felix Woelflin, Argentínumaður búsettur á Íslandi, ræddi þessar niðurstöður við okkur. Davíð Roach rýnir í nýja plötu hljómsveitarinnar Ex.Girls, Verk. Stöðvið þjóðarmorðin, er ákall stuðningsfólks Palestínu. Við ræddum þetta hugtak, þjóðarmorð, við hernaðarsagnfræðinginn Erling Erlingsson.
-
Við rýnum í myndina sem fékk Gullpálmann í Cannes í ár, Anatomie d'une chute, Anatomy of a Fall, sem mætti kannski þýða sem Fallið er hátt. Mynd eftir Justine Triet sem inniheldur mögulega best skrifaða hjónarifrildi kvikmyndasögunnar. Kolbeinn Rastrick segir frá. Við höldum áfram að heyra hljóðdagbækur Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín fyrir 10 dögum. Reiði, sobril, Skopp, körfubolti og gasmengun koma meðal annars við sögu. Afsagnir og uppsagnir í listheiminum eru ein birtingamynd átákanna á Gaza. Við förum yfir nokkrar afsagnir og uppsagnir sem hafa gerst í kjölfar yfirlýsinga listamanna eða fólks í menningargeiranum í Evrópu og Bandaríkjunum.
-
Við förum yfir menningarátökin sem standa nú yfir í bókmenntaheiminum. Þar er verið að ræða hvort rithöfundar eigi að sniðganga Iceland Noir, glæpasagnahátíð í Reykjavík, vegna þátttöku Hillary Clinton, fyrrum forsetaframbjóðanda og fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á hátíðinni. Stríðið á Gaza og afstaða Hillary Clinton til vopnahlés er ástæðan fyrir því að nokkrir hafa ákveðið að taka ekki þátt í ár. Er bókmenntahátíð vettvangur fyrir pólitísk átök og er Hillary Clinton meira en bara umdeild? Á morgun hefði Stella Haux, Guðný Stella Hauksdóttir, orðið sjötug. Rauðsokka, verkalýðsbaráttukona, trúbador, Stella var eldheit baráttukona. Á morgun verður hennar minnst á tónleikum á Dillon, í tilefni sjötugsafmælisins. Dagný Krisjtánsdóttir, prófessor emerítus í Íslenskum nútímabókmenntum, var vinkona hennar. Hún kom í Lestina og sagði frá Stellu. Danstónlistarútvarpið Drif hefur haldið út metnaðarfulli dagskrá allar helgar frá því í sumar. Heimili stöðvarinnar er nú í Hljómturninum á Lækjartorgi en þar þeyta plötusnúðar skífum og streymt er beint frá turninum á Yotutube. Atli James, betur þekktur sem Jamesendir, tekur á móti okkur í Hljómturninum og segir frá Drifinu og stöðunni í íslensku raftónlistarlífi.
-
Það getur fylgt því ný sjálfsmynd að skilja, það myndast gapandi tóm, sorgin er talin annars flokks, við erum öll að fylgja ósýnilegu handriti. Við ræðum þetta og meira við sviðslistakonurnar Evu Rún Snorradóttur og Vilborgu Ólafsdóttur í Kviss Búmm Bang. Þær eru að hefja rannsóknarvinnu fyrir nýtt sjálfsævisögulegt verk sem fjallar um menningu og arfleið hjónabandsins - og ekki síst algengnan fylgifisk þess, skilnað. Svo rifjum við upp ástarrannsóknir, viðtal við hjónabandsráðgjafa og framsögur frá 1958, þar sem ástæðum hjónaskilnaða var velt fyrir sér. Það er bara eitt mál á dagskrá í Lestinni í dag, algengur fylgifiskur hjónabandsins, skilnaður.
-
Við hittum fimm unglinga í Hagaskóla sem sigruðu Skrekk í gær. Þau eru í sigurvímu og ætla að halda hópinn eftir stífar Skrekksæfingar haustsins. Atriðið þeirra fjallaði um símafíkn og heitir 'Líttu upp, taktu eftir'. Við höldum áfram að heyra hljóðdagbækur Grindvíkinga, sem fengu að fara heim til sín í fimm mínútur í gær. Una María Magnúsdóttir, grafískur hönnuður, veltir því fyrir sér hvernig væri hægt að lýsa ljósmynd í útvarpi.
-
Eftir nokkrar vikur af jarðskjálftum og gosóróa á Reykjanesi gáfu Almannavarnir út tilmæli til íbúa Grindavíkur, seint á föstudagskvöld, að rýma bæinn samstundis. Þar með urðu tæplega fjögur þúsund íbúar bæjarins að flóttafólki í eigin landi. Á þrjá daga hafa nokkrir Grindvíkingar skrásett fyrir okkur atburðarásina, hugsanir sínar og tilfinningar: Sigríður Gunnarsdóttir, Siggeir Ævarsson og Teresa Birna Björnsdótir, Teresa Bangsa. Þórdís Nadia Semichat pistlahöfundur fjallaði fyrir stuttu síðan um suður-afrísku tónlistarstefnuna Amapiano. Í dag fáum við að heyra um dauðametal frá Botswana. Í gær setti fréttaljósmyndarinn Kjartan Þorbjörnsson, Golli, færslu inn á samfélagsmiðla, þar sem hann talaði um hlutverk fréttaljósmyndara í tengslum við mögulegt eldgos í Grindavík. Við hringdum í hann og náðum honum á leið til Grindavíkur, og ræddum drónabann Samgöngustofu og aðgengi fréttaljósmyndara.
-
Hljómsveitin Sucks to be you nigel kom með krafti inn í reykvísku grasrótarrokksenuna fyrir tveimur árum með plötunni sinni Tína Blóm. Þetta var hrátt og unggæðingslegt pönk, gítarriff klippt út úr íslensku 80s pönk bylgjunni, og textarnir súrir og hressir brandarar um það að skera börn í tvennt, um þrána eftir raflost og ljót blóm. Fyrir hana fengu þau Kraumsverðlaunin og hlutu einnig viðurkenningu á tónlistarverðlaunum Reykjavík Grapevine. Á morgun kemur svo önnur plata sveitarinnar, Birdnoise, fugla-hávaði. En á þessari plötu hefur hljómsveitin tekið algjörlega nýja stefnu. Kristján Guðjónsson ræðir við meðlimi hljómsveitarinnar. Á dögunum kom út ný íslensk heimildarmynd um kennaraverkföllin á Íslandi fram að aldarmótum. Það er mikill hasar, nokkuð um útskýringar á efnhagslegum hugtökum og Ólafur Ragnar Grímsson útskýrir valdatengsl í Íslensku þjóðfélagi. Leikstjóri og annar handritshöfunda myndarinnar, Einar Þór Gunnlaugsson, ræðir efnistök myndarinnar. Katrín Helga Ólafsdóttir lýkur Airwaves-yfirferð Lestarinnar í ár.
-
Þau Vaka Agnarsdóttir og Egill Gauti Sigurjónsson úr hljómsveitinni Inspector Spacetime verða lestarstjórar í þætti dagsins ásamt Lóu Björk. Tilefnið er útkoma nýrrar stuttskífu hljómsveitarinnar, Extravaganza, sem kemur út föstudaginn næstkomandi. Við frumflytjum tvö glæný lög með hljómsveitinni, drekkum kaffi og ræðum málin. Er Airwaves komin af léttasta skeiði, eða má hún muna fífil sinn fegurri, einhvern veginn þannig mætti þýði titil skoðanapistil sem birtist í Reykjavík Grapevine í gær. Pistillin er eftir Jón Trausta Sigurðarson, útgefanda og einn stofnenda tímaritsins, en þar rekur hann þróun hátíðarinnar frá frá því að hún var fyrst haldin árið 1999 og til dagsins í dag. Hann veltir fyrir sér æ eldri tónleikagestum, hugmyndafræðinni á bakvið val á tónlistarfólki, og uppröðun þeirra. Kristján ræddi við Jónda um Airwaves og greinina hans Is Iceland Airwaves Past its prime? Þau Katrín Helga Ólafsdóttir og Davíð Roach Gunnarsson voru útsendarar Lestarinnar á Airwaves í ár, við fáum að heyra þeirra yfirferð á hátíðinni í þætti dagsins.
-
Lóa veltir fyrir hvort hún eigi að pósta eða sleppa því að pósta í story um stríð. Undanfarna þrjá áratugi hafa óvenjulega margir íslenskir popptónlistarmenn notið vinsælda utan landsteinana. Björk ruddi brautina og í kjölfarið komu hljómsveitir eins og Sigur Rós og Múm, seinna Of monsters and Men og Kaleo, og núna síðast Laufey. Þessum listamönnum hefur mörgum hverjum verið troðið inn í ákveðnar þjóðarklisjur en hafa líka notfært sér þær. Við spjöllum við Þorbjörg Daphne Hall og Nína Hjálmarsdóttir um þessar ímyndir Íslands og birtingarmyndir þeirra í samtímalistum. Chanel Björk Sturludóttir horfir aftur á eina af sínum uppáhaldsmyndum úr barnæsku, The Blind Side, i ljósi nýrra upplýsinga Myndin fjallar um hvíta fjölskyldu frá suðurríkjunum í Ameríku sem tekur ungan svartan mann, Michael Oher, og undir sinn verndarvæng og gera hann að yfirburðar íþróttamanni í amerískum fótbolta. Nú hefur Oher kvartað yfir því hvernig saga hans var misnotuð.
-
Það er mánuður frá því að átök blossuðu aftur upp fyrir botni miðjarðarhafs þegar liðsmenn Hamas frömdu fjöldamorð á ísraelskum borgurum og tóku nokkur hundruð gísla sem margir hverjir eru enn í haldi. Í kjölfarið hefur Ísraelsher haldið úti fordæmalausum loftárásum á Gaza-svæðið, sprengt íbúðabyggingar, ráðist á flóttamannabúðir. Lokað er fyrir vatn og rafmagn og heilbrigðisstofnanir geta illa starfað. Tala látinna hækkar hratt og nálgast 10 þúsund. Um helgina fór fram fjölmennur fundur í Háskólabíói þar sem margir komu saman og lýstu yfir stuðningi við Palestínu. Stuðningur við málstað Palestínu virðist vera nokkuð mikill meðal íslensks almennings og mörgum blöskrar að Ísland hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu í Sameinuðu þjóðunum þar sem kosið var um ályktun um vopnahlé á svæðinu. Sveinn Rúnar Hauksson mætir og ræðir afstöðu Íslendinga til Ísrael og Palestínu, bæði meðal almennings og stjórnvalda. Tengsl tölvuleikja og jungle-tónlistar eru meiri en marga grunar. Jungle var gríðarlega oft hluti af hljóðmynd tölvuleikja frá árunum 1995-2005. Og tveimur áratugum síðar njóta handvalin mix af þess konar tónlist mikilla vinsælda á Youtube. Hjalti Freyr Ragnarsson pælir í þessum óvæntu tengslum jungle og tölvuleikja. Við endurflytjum líka fyrsta þáttinn í seríunni Gervigreindar-Lestin sem við sendum út í sumar - ævintýralegt ferðalag Kristjáns og Lóu í tilraun til að gera fyrsta gervigreindarsmíðaða útvarpsþátt Íslandssögunnar.
-
Þátturinn verður að miklu leyti tekinn undir tónlistarhátíðina Iceland Airwaves sem hefst formlega í dag. Þriggja daga tónlistarhátíð í miðborg reykjavíkur. Við fáum til okkur tvær tónlistarkonur sem spila á hátíðinni í ár, Sölku Valsdóttur úr Cyber og Neonme, og Brynhildi Karlsdóttur úr Kvikindi. Þær ræða um bransa speed-dating, að spila á tónleikum með smábarn, og það að sleikja svitann af bringunni á bassaleikaranum í Vintage Caravan. Við kíkjum lika niður i Kolaport þar sem gestir eru byrjaðir að sækja armböndin sín. Þar rekumst við á Sindra Ástmarsson, dagskrárstjóra hátíðarinnar, hollenska aðdáendur Árnýjar Margrétar og nokkra dúskhúfklædda ameríkana - flesta frá Denver í Colorado. Undir lok þáttar rýnir Kolbeinn Rastrick í nýja kvikmynd Martins Scorcese, Killers of the flower moon.
-
Við kíkjum á nýjan klúbb sem opnar á morgun í Reykjavík. Staðurinn Radar opnar þar sem skemmtistaðurinn Húrra var áður til húsa. Á Radar verður áherslan á raftónlist, Séra Friðrik Friðriksson, stofandi KFUM og KFUK , er í hálfgerðri dýrlingatölu á Íslandi. Við ræðum við Jón Karl Helgason um eðli og tilgang dýrlinga, en bókin hans Ódáinsakur frá árinu 2013 fjallar um helgifestu þjóðardýrlinga. Heimildaþættirnir Skaginn fjalla um eitt besta fótboltalið íslandssögunnar. Handritshöfundur þáttanna, bolvíska stálið, Kristján Jónsson, kom og ræddi um þættina og vinsældir heimildaþátta um íþróttafólk og afrek þeirra.
-
Lestin er ekki eini þátturinn sem fagnar um þessar mundir. Rauða Borðið, viðtalsþáttur Gunnars Smára Egilssonar á Samstöðinni, hefur núna verið sent út 500 sinnum. Lóa heimsótti Gunnar Smára en hann hafði ekki tíma til að koma í viðtal nema hann mætti taka viðtal við Lóu um leið. Og þannig sameinuðust Lestin og Rauða borðið. Við fáum pistil frá Katrínu Helgu Ólafsdóttur, tónlistarkonunni K.óla, sem heldur áfram að fjalla um tónlistarsenurnar í löndunum í kringum okkur. Hún hefur kynnt okkur fyrir færeysku senunni, en nú færir hún sig til okkar næstu nágranna, Grænlendinga. Þetta er annar pistill af tveimur um grænlenska tónlistarlífið. Við kynnum til leiks nýjan pistlahöfund hér í Lestinni, Sigríður Þóra Flygenring er 24 ára grafiskur hönnuður, og hún er ekki bara með hugan við internetið heldur líka líkamann. Í sínum fyrsta pistli í Lestinni veltir hún fyrir sér hvað verður um líkamann þegar við förum á netið.
-
Lestin brunar af stað í þúsundasta skipti. Lestarþáttur númer nákvæmlega eitt þúsund. Um það bil 55 þúsund mínútum af Lest hefur verið útvarpað hérna á Rás 1, 916 klukkutímar, rúmlega 38 dagar af Kanye West, Netflix, gervigreind, Hegel, Húgó, MeToo, mannöldinni, uppistandi, raunveruleikasjónvarpi, samfélagsmiðlum, poppi og pólitík. Að þessu tilefni höldum við hátíð, litla sjálfshátíð eðða Lestarfestival. Við bjóðum gömlum vinum í partý og gerum það sem fólk gerir í öllum góðum partýum, förum í spurningaleik. Til okkar koma Þröstur Helgason, fyrrverandi dagskrárstjóri Rásar 1, og Anna Marsibil Clausen, ritjstóri hlaðvarpa á Ríkisútvarpinu og fyrrum Lestarstjóri. Við heyrum brot úr gömlum þáttum.
-
Nýjasta tónleikaferð bandarísku poppsöngkonunnar Taylor Swift er nú þegar komin í sögubækur tónlistariðnaðarins. Tekjuhæsta tónleikaferð konu frá upphafi og hún verður að öllum líkindum tekjuhæsta tónleikaferð allra tíma, óháð kyni tónlistarmanns. Kvikmynd unnin upp úr tónleikum hennar í Inglewood, í Kaliforníu í ágúst er orðin vinsælasta tónleikakvikmynd allra tíma. Eldheitir aðdáendur, Swifties, um allan heim, meðal annars hér á Íslandi, flykkjast á myndina, skreyttir glitrandi gervidemöntum og vinaböndum, og öskursyngja með einni allra stærstu poppstjörnu samtímans. Í Lestinni í dag ætlum við ekki að sökkva okkur í lögin eða textana heldur að rýna í markaðsvélina sem hefur spilað stóran þátt í velgengi Taylor Swift með Eydísi Blöndal. Við höldum í ferðalag um tónlistarsenuna í okkar næsta nágrannalandi, Grænlandi. Þar rekumst við meðal annars á sleðahunda, mosuxa, lengsta orð grænlensku og rokksveitin Sumé. Leiðsögumaður okkar er tónlistarkonan Katrín Helga Ólafsdóttir. Ef þú hefur ekki séð Duggholufólkið þá hefur þú ekki lifað, segir Hrönn Sveinsdóttir, en þessi sígilda barnamynd sem gagnrýndi snjallsímafíkn fyrir tíma snjallsímans er ein af þeim sem verður sýnd á Alþjóðlegri barnakvikmyndahátíð í Reykjavík. Við hringjum í Bíó Paradís og heyrum um hátíðina.
- Laat meer zien