Afleveringen

  • Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands er viðmælandi Kristjáns Arnar í þessum þætti og ræddu þeir að mestu um eftirfarandi: Alþingi Íslendinga samþykkti ný lög um skák síðastliðinn laugardag eða á síðasta starfsdegi þingsins fyrir sumarfrí. Lögin fela í sér þá breytingu að núverandi lög um launasjóð stórmeistara í skák, nr. 58/1990 og lög um Skákskóla Íslands, nr. 76/1990 falla úr gildi frá og með 1. febrúar 2025 þegar nýju heildarlögin um skák taka gildi. Ákvæði til bráðabirgða öðlast þó þegar gildi. Þar kemur fram að störf stórmeistara í skák séu lögð niður frá 31. janúar 2025 og að um réttindi og skyldur starfsmanna [stórmeistara], þ.m.t. biðlaunaréttur, fari samkvæmt lögum um réttindin og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Gert er ráð fyrir að líklegt sé að hópur sem nú fær laun stórmeistara muni uppfylla öll skilyrði til að fá úthlutun úr nýjum afrekssjóði í skák. Til að tryggja meðalhóf er lagt til að þessi hópur, nú sjö manns, njóti forgangs til styrkja úr sjóðnum í fyrstu úthlutun árið 2025 en eftir þann tíma verða umsóknir þeirra metnar á sama grundvelli og annarra úr sjóðnum. Með nýju lögunum er skilgreint að framlög ríkisins til skákmála renni annars vegar til afrekssjóðs í skák og hins vegar til skákhreyfingarinnar í gegnum æðsta aðila hennar, Skáksamband Íslands, meðal annars til fræðslu um skák. Jafnframt er horft til þess möguleika að styrkja efnilegt skákfólk, sem stefnir að alþjóðlegum árangri, en hingað til hafi eingöngu þeir sem hlotið hafa nafnbótina stórmeistari uppfyllt skilyrði til að fá greiðslur úr ríkissjóði. Styrkjum verður að jafnaði úthlutað einu sinni á ári og verða veittir í þrjá til tólf mánuði í senn og þá til skilgreindra verkefna sem taki mið af væntum árangri umsækjanda það árið. Til að bæta stöðu og auka möguleika kvenna í skák er heimilt að setja mismunandi skilyrði styrkveitinga fyrir kynin.

  • Sigurbjörn J. Björnsson og Björn Ívar Karlsson eru mættir Við skákborðið til Kristjáns Arnar að þessu sinni. Meginefni þáttarins er umfjöllun um nýja bók eftir Sigurbjörn sem er að koma út í komandi viku. Hve þung er þín krúna er söguleg skáldsaga sem segir frá heimsmeistaraeinvíginu í skák á Íslandi á nýstárlegan hátt. Hún greinir frá því hvernig íslensku skipuleggjendurnir tókust á við margvísleg vandamál sem komu upp við skipulagningu einvígisins og það hvernig þeir Spasskí og Fischer tókust á við álagið og sundrungina sem kom upp i herbúðum beggja aðila, sumarið 1972 þegar skák varð miðdepill heimsfréttanna.

    Höfundur bókarinnar Sigurbjörn J. Björnsson er margreyndur skákmaður, fyrrverandi skákmeistari Reykjavíkur og núverandi Íslandsmeistari skákfélaga með skákdeild Fjölnis.

    Í þættinum koma þeir félagar inn á ákvörðun aðalfundar Skáksambands Íslands um að halda áfram útgáfu tímaritsins Skákar á prentformi en stjórn sambandsins hafði fyrr á árinu ákveðið að hætta útgáfunni , Fjórmenningaklíkuna sem heldur á heimsmeistaramót 50 ára og eldri í Kraká í Póllandi í byrjun júlí, Hans Moke Niemann sem aftur hefur rofið 2700 alþjóðlega skákstigamúrinn, Madrid Chess Festival þar sem ýmis leiðindi voru fyrirferðamikil, ásakanir um svindl o.fl. Einng kom fram að Jeanne Cairns Sinquefield, meðstofnandi Saint Louis Chess Club, tilkynnti við upphaf Cairns Cup mótsins í síðustu viku að fimm fyrstu bandarísku konurnar sem næðu stórmeistaratitli fyrir 4. júlí 2029 yrðu verðlaunaðar sérstökum "Cairns Chess Queens" verðlaunum að upphæð 100.000 dollurum eða um 14. milljónum íslenskra króna. Alþjóðaskáksambandið hefur ákveðið að heimsmeistaramótið í at- og hraðskák skuli fara fram í New York í Bandaríkjunum á milli jóla og nýárs og

  • Zijn er afleveringen die ontbreken?

    Klik hier om de feed te vernieuwen.

  • Gestir skákþáttarins að þessu sinni eru skákmeistararnir Magnús Pálmi Örnólfsson, hagfræðingur MBA og Rúnar Sigurpálsson, FIDE meistari og framkvæmdastjóri orkufyrirtækisins Fallorku á Akureyri. Magnús Pálmi var í stúdíóinu með Kristjáni Erni en Rúnar kom svo inn í síðari hluta þáttarins með símasambandi frá Akureyri. Í fyrri hlutanum sagði Magnús frá áætlun sinni um að setja á stofn skáksetur á Hóli í Bolungarvík, sem hann nýlega festi kaup á, þar sem skákmönnum gæfist kostur á að dveljast, nema og stúdera skáklistina í góðu næði við góðar aðstæður. Einnig ræddi hann áhuga sinn á að koma upp fyrsta flokks skákaðstöðu á höfuðborgarsvæðinu. Þar yrði hægt að halda vönduð skákmót þar sem öll bestu tæki og áhöld yrðu til staðar, bæði til taflmennsku og útsendinga. Rúnar Sigurpálsson sagði frá skáklífinu á Akureyri, rifjaði aðspurður af Magnúsi upp fjölda þeirra skákmeistaratitla sem hann hefur unnið til í gegnum árin og sögðu þeir félagarnir sögur frá menntaskólaárum sínum á Akureyri og þegar þeir tefldu í landsliðsflokki í Vestmannaeyjum árið 1994. Margt annað bar á góma sem hlusta má á í þættinum.

  • Skákkennarinn og FIDE meistarinn Björn Ívar Karlsson var gestur þáttarins að þessu sinni. Eins og oft áður var umræðuefnið fjölbreytilegt en þeir Björn Ívar og Kristján Örn veltu fyrir sér slökum árangri heimsmeistarans Ding Liren í Norway Chess skákmótinu sem lýkur í vikunni. Björn efaðist um að við fengjum að sjá einvígi á milli Ding og áskorandans Gukesh í lok árs eins og stefnt er að, Ding Liren væri einfaldlega ekki búinn að jafna sig eftir erfið veikindi undanfarið ár. Björn talaði um EM ungmenna 8-18 ára sem fer fram í Prag 21. ágúst til 1. september en þar væri um að ræða metþátttöku frá Íslandi. Komið var inn á keppnisferðir Breiðabliks til Deltalift Open í Halmstad, þjálfunaraðferðir og undirbúning fyrir skákir, þróun og breytingar á ungum skákmönnum, Wessman Cup sem CAD-bræður héldu fyrir stuttu og hversu öflugir "gömlu mennirnir" Jóhann Hjartarson og Helgi Ólafsson væru en Helgi stóð uppi sem sigurvegari. Þá var rætt um Áskorendaflokk sem nú stendur yfir í húsakynnum TR og væntanlega bók Sigurbjörns Björnssonar, Hve þung er þín krúna, um einvígið 1972. Í fundargerð Skáksambands Íslands frá 26. apríl sl. segir að Helgi Ólafsson hafi lýst því yfir að hann ætli að hætta sem skólastjóri Skákskólans í haus eftir 30 ára starf. Kristján spurði Björn Ívar hvort hann hygðist gefa kost á sér sem næsti skólastjóri og sagðist Björn hafa áhuga á að taka við því starfi. Í fundargerðinni kemur einng fram að stjórn SÍ hafi ákveðið á fundi sínum að óska við Dómstól SÍ að Héðinn Steingrímsson stórmeistari fengi þriggja ára bann frá Skákþingi Íslands auk eins árs banns frá öðrum mótum á vegum SÍ. Kristján Örn spilaði viðtal í lok þáttarins sem hann tók við Helga Árnason formann skákdeildar Fjölnis og fyrrverandi skólastjóra Rimaskóla vegna málsins en Héðinn er öflugur liðsmaður Íslandsmeistara Fjölnis í skák.

  • Nýr formaður Taflfélags Reykjavíkur, Ingvar Þór Jóhannesson og fráfarandi formaður félagsins, Gauti Páll Jónsson eru gestir Kristjáns Arnar Elíassonar í þættinum.

    Aðalfundur Taflfélags Reykjavíkur var haldinn í síðustu viku en þá voru m.a. gerðar þær breytingar á stjórn félagsins að Gauti Páll Jónsson, fráfarandi formaður, vék úr aðalstjórn í varastjórn og Ingvar Þór tók við formennsku. Gauti Páll hafði áður tekið við formennsku í desember 2023 þegar Ríkharður Sveinsson þáverandi formaður féll frá. Á fund­in­um var Her­mann Ragn­ars­son gerður að heiðurs­fé­laga Tafl­fé­lags Reykja­vík­ur fyr­ir störf sín í þágu fé­lags­ins. Þeir Ingvar Þór og Gauti Páll ræddu um starfsemi félagsins í vetur og mótahald sem er fram undan. Myndarlega verður staðið að Haustmót Taflfélags Reykjavíkur 2024 en það verður tileinkað minningu Ríkharðs. Eins og svo oft áður í þessum skákþáttum var farið um víðan völl í spjalli um íslenskt skáklíf, talað um skákviðburði og sagðar skákfréttir.

  • Gunnar Kristinn Gunnarsson er gestur þáttarins að þessu sinni. Gunnar er fyrrverandi útibússtjóri Útvegsbankans í Hafnarfirði og var hann liðsmaður í sigursælli sveit bankans í hinni vinsælu skákkeppni stofnanna. Hann var forseti Skáksambands Íslands á árunum 1974-1975 og 1982-1984. Gunnar hefur þá sérstöðu meðal íslenskra skákmanna að vera eini Íslandsmeistarinn í skák (1966) sem einnig hefur unnið Íslandsmeistaratitil í annarri grein en hann varð Íslandsmeistari í knattspyrnu með meistaraflokki Vals (1956). Gunnar lék nokkra landsleiki með landsliði Íslands í knattspyrnu. Með sigri á Skákþingi Íslands 1966 tryggði hann sér sæti í sterku ólympíuliði Íslands sem tefldi á Ólympíumótinu í Havana á Kúbu sama ár. Gunnar verður 91 árs gamall þann 14. júní 2024 og heldur hann sér enn við á skáksviðinu með áskrift á tímaritinu New In Chess, stúderingum og með því að tefla vikulega með ÆSI, skákklúbbi eldri borgara í Stangarhyl.

  • Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari og nýkrýndur Íslandsmeistari í skák er gestur Kristjáns Arnar í þessum þætti. Íslandsmótinu í skák lauk á laugardaginn þegar lokaumferðin fór fram í Mosfellsbæ. Fyrir lokaumferðina hafði Helgi Áss Grétarsson þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en þá var hann einum og hálfum vinningi á undan næsta manni, Vigni Vatnari Stefánssyni, fráfarandi Íslandsmeistara. Helgi endaði mótið á stuttu jafntefli við Vigni og fór einn keppenda taplaus í gegnum mótið.

    Í þættinum ræða þeir Íslandsmótið, andstæðinga Helga í mótinu, stöður sem upp komu eða öllu heldur hvernig Helgi undirbjó sig og nálgaðist einstaka skákir sínar allt eftir hver var andstæðingur hans hverju sinni. Helgi ræddi 5 ára planið sem hann setti sér árið 2018, sagði frá Íslandsmeti sínu í blindskák en árið 1997 tefldi hann blindskákafjöltefli við 11 manns og stendur það met enn. Í lokin talaði Helgi um og lýsti aðdáðun sinni á Indverjanum unga Gukesh Dommaraju sem fyrr í mánuðinum sigraði á áskorendamóti FIDE og vann sér þar með réttinn til að tefla við núverandi heimsmeistara í skák, Kínverjann Ding Liren síðar á árinu.

  • Björn Þorfinnsson alþjóðlegur skákmeistari og ritstjóri DV.is er gestur Kristjáns Arnar að þessu sinni. Þeir ræddu aðallega um Skákþing Íslands sem nú stendur yfir, nýafstaðið áskorendamót FIDE sem fram fór í Toronto í Kanada þar sem átta af sterkustu skákmönnum heims kepptu tvöfalda umferð allir við alla um réttinn til að skora á Ding Liren núverandi heimsmeistara í skák síðar á árinu. Einnig ræddu þeir fráfall fyrrverandi stórmeistara Isa Kasimi (Igors Rausis) frá Lettlandi, sem lést fyrr á árinu (f. 1961 - d.2024), en hann var gripinn glóðvolgur við svindl í miðju skákmóti á salerni þar sem hann notaði símatölvu sér til aðstoðar. Igor Rausis náði mest 2.686 elo-stigum árið 2019 eða sama ár og hann var staðinn að verki í opna skákmótinu í Strassborg en þá var hann elsti maðurinn á lista FIDE yfir 100 stigahæstu skákmenn heims. Rausis var sviptur stórmeistaratitli sínum og fékk sex ára keppnisbann af siðanefnd/dómstóli FIDE í desember sama ár. Þáttastjórnandi, Kristján Örn Elíasson, sat í rannsóknar- og ákærunefnd FIDE á þessum tíma og var einn þriggja meðlima Fair Play nefndar FIDE sem rannsakaði málið og gaf út ákæru á hendur Igor Rausis.

  • Róbert Lagerman FIDE meistari og alþjóðlegur skákdómari mætti í settið á Útvarpi Sögu en þetta var sextugasti þáttur Kristjáns Arnar Elíassonar Við skákborðið. Róbert lærði skák frekar seint miðað við marga aðra sem náð hafa langt en hann var orðinn 15 ára gamll þegar fósturfaðir hans Hörður Victorsson kenndi honum fyrst að tefla. Skákkennslan stóð stutt þar sem Hörður nennti ekki lengur að tefla við hann eftir að Róbert fór að vinna hann reglulega. Fljótlega kom í ljós að Róbert var einstaklega hæfileikaríkur við skákborðið og ári síðar var hann orðinn Íslandsmeistari undir 20 ára (U-20). Róbert er margfaldur Norðurlanda- og Íslandsmeistari með Menntaskólanum við Hamrahlíð en liðsfélagar hans á menntaskólaárunum voru stórmeistararnir Jón L. Árnason, Margeir Pétursson og Jóhann Hjartarson ásamt FIDE meistaranum Þorsteini Þorsteinssyni. Róbert ræddi um langan og vægast sagt skrautlegan skákferil sinn. Hann talaði um kynni sín og vináttu við Hrafn Jökulsson, gímuna við þunglyndi, Bakkus og eltingaleik sinn við konur. Róbert er rétt að byrja frásögn sína en hann kemur fljótlega aftur í annan þátt.

  • Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir, landsliðskonur í skák, segjast afar ánægðar með Reykjavíkurskákmótið sem heppnaðist vel þrátt fyrir að þeim finnist að þeim hefði mátt ganga betur eins og gengur. Stemningin á slíkum mótum sé einstök og gaman að sjá hversu margir sæki mótið aftur ár eftir ár. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Við skákborðið en Kristján Örn Elíasson ræddi við þær Hallgerði og Veroniku.

    Þær segja ákveðinn kjarna fólks sem telji um 150 til 200 manns mæti á hverju ári á mótið og þær séu farnar að kynnast vel fólkinu innan þess hóps og það sé alltaf jafn gaman að taka þátt. Þá sé ekki síður gaman að taka þátt í þeim viðburðum sem fara fram til hliðar við mótið sjálft eins og pub-quiz, hraðskákmót og þá fari erlendir keppendur oft Gullna hringinn sem þeim finnist afar skemmtilegt. Þær segjast finna vel fyrir því að þátttakan á mótinu hafi aukist verulega undanfarin ár og það sé auðvitað jákvætt en það séu þó orðin svolítil þrengsli á svona fjölmennu Reykjavíkurskákmóti.

    Hallgerður og Veronika ræddu um konur í skák, sögðu skoðun sína á hvort munur væri á styrkleika kvenna og karla við skákborðið, samskipti kynjanna, ferðalög erlendis, Ólympíumót, landsliðsþjálfara, mikla samkeppni stúlkna um sæti í kvennalandsliðinu og margt fleira áhugavert og skemmtilegt.

  • Stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson er gestur Kristjáns Arnar í þættinum Við skákborðið á Útvarpi Sögu að þessu sinni. Héðinn varð strax ungur að árum mjög sterkur skákmaður. Hann varð margsinnis Norðurlandameistari barna- og unglinga, hann varð heimsmeistari barna undir 12 ára árið 1987 og var aðeins 15 ára gamall þegar hann varð í fyrsta skipti Íslandsmeistari í skák en það ár náði hann styrkleika upp á 2500 eló-skákstig. Í þættinum talar Héðinn meðal annars um rannsóknir sínar á skák og gervigreind, áform ríkisstjórnarinnar (Alþingis) um að leggja niður stórmeistaralaunin í núverandi mynd, góðan árangur sinn á nýafstöðnu Reykjavíkurskákmótinu en Héðinn hreppti skipt annað sæti ásamt sex öðrum skákmönnum.

  • Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands kom í settið til Kristjáns Arnar á Útvarpi Sögu. Umræðuefnið var Reykjavíkurskákmótið en gríðarleg spenna er hlaupin í mótið þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Áttunda umferð verður tefld í dag og lýkur mótinu á morgun þegar níunda umferð verður tefld kl. 11:00 um morguninn.

    Stórmeistarinn Alisher Suleymenov frá Kasakstan er einn efstur með sex vinninga þegar sjö umferðir hafa verið tefldar en alls sautján keppendur fylgja honum fast á eftir með fimm og hálfan vinning og þar af fjórir Íslendingar, stórmeistararnir Guðmundur Kjartansson, Héðinn Steingrímsson, Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson!

    Í þættinum eru spilaðir hljóðbútar af stuttum viðtölum sem tekin voru við aðstoðarmótshaldara og keppendur seint í gærkvöldi þegar sjöundu umferð var að ljúka í Hörpunni.

  • Gestir Kristjáns Arnar í þessum þætti eru FIDE meistararnir Sigurbjörn Björnsson frá skákdeild Fjölnis og Halldór Grétar Einarsson frá skákdeild Breiðabliks. Þeir ræddu um nýafstaðið Íslandsmót skákfélaga en lið þeirra urðu sigurvegarar úrvalsdeildar og 1. deildar. Firnasterk skákdeild Fjölnis varð Íslandsmeistari skákfélaga og skákdeild Breiðabliks varð efst í 1. deild og tekur því sæti í úrvalsdeildinni í haust.

    Þeir Halldór og Sigurbjörn ræddu einnig fyrirkomulag Íslandsmótsins en þeir vilja gera smávægilegar breytingar á úrvalsdeildinni. Frábær árangur Alexandr Domalchuk-Jónassonar kom til tals en hann náði lokaáfanga að alþjóðlegum meistaratitli ásamt fyrst áfanga sínum að stórmeistartitli á Íslandsmótinu. Halldór greindi að hluta frá nýrri metnaðarfullri 5 ára áætlun skákdeildar Breiðabliks um að styðja við bakið á ungum og efnilegum liðsmönnum skákdeilarinnar, bæði fjárhagslega og félagslega. Hann tók skýrt fram að hluti áætlunarinnar væri "hernaðarleyndarmál" en stefnt væri meðal annars á að úr afrekshópi þeirra kæmu nokkrir titilhafar innan 5 ára.

    Reykjavíkurskákmótið kom einnig til tals en það hefst á föstudaginn kl. 15:00 og stendur yfir dagana 15. til 21. mars. Á meðal keppenda er Úkraínumaðurinn Vasyl Ivanchuk, fyrrum heimsmeistari í hraðskák og atskák. Hann var á sínum tíma annar stigahæsti skákmaður heims með 2787 eló-skákstig. Hann er talinn af mörgum kollegum sínum einn mesti snillingur skáklistarinnar.

    Heimasíða og dagskrá Reykjavíkurskákmótsins í Hörpu tónlistarhúsi

  • Gestur Kristjáns Arnar í dag er Gauti Páll Jónsson ritstjóri tímairtsins Skákar. Ræddu þeir ákvörðun stjórnar Skáksambands Íslands um að leggja niður útgáfu tímaritsins, viðbrögð við því og hvað sé hægt að gera til að snúa þeirri ákvörðun við. Fóru þeir um víðan völl í viðtalinu, ræddu ungmennastarfið, HM ungmenna á Ítalíu, starfið í Taflfélagi Reykjavíkur og spáðu í síðari hluta Íslandsmóts skákfélaga sem fer fram í Rimaskóla um helgina svo fátt eitt sé nefnt. En á endanum barst talið alltaf að tímaritinu Skák enda er það hinum unga ritstjóra kappsmál, og í raun allri skákhreyfingunni, að blaðið haldi áfram göngu sinni.

    Meðal efnis í blaðinu:

    Skákskýringar frá Íslandsmeistara kvenna.Skákskýringar frá Íslandsmeistara í atskák.Skákannáll haustið 2023.Bókarkafli úr sögulegri skáldsögu um einvígið 1972. Elostigatölfræði íslenskra skákmanna 2023. Rokkað og rólað gegn Nimzanum.“Kynni mín af skák” eftir rithöfund sem kann ekki mannganginn.… og margt fleira …

    Skilaboð frá ritstjóra: "Allir lausapennar blaðsins skrifa launalaust og flestar pizzur á matseðli Domino´s kosta meira en blaðið. Björgum blaðinu, kauptu blaðið!😊"

    Hér er hægt að kaupa nýjasta blaðið og um leið skora á SÍ að draga ákvörðun sína til baka.

    Tímariðtið Skák verður til sölu á Íslandsmóti skákfélaga í Rimaskóla um helgina. Aðrir sölustaðir eru Spilavinir, Bóksala stúdenta og Bókakaffið Ármúla.

  • Ritstjórar www.skak.is, þeir Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands og Ingvar Þór Jóhanesson FIDE meistari kíktu í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Tilgangurinn var að fara yfir Reykjavíkurskákmótið sem hefst 15. mars næstkomandi. Uppselt er á mótið en skráðir keppendur eru 429 frá 49 þjóðlöndum. Í ár eru 60 ár liðin frá því að fyrsta Reykjavíkurskákmótið fór fram í Lídó árið 1964. Þá var mótið lokað, eða svokallað boðsmót, og voru keppendur 14 talsins. Sigurvegari mótsins var fyrrverandi heimsmeistari í skák, sjálfur töframaðurinn frá Riga, Mikhail Tal en hann hlaut 12,5 vinning í 13 skákum. Þáverandi heimsmeistari kvenna, Nona Gaprindashvili, var einnig á meðal keppenda.

    Eins og áður hjá þeim félögum var farið um víðan völl í spjalli um skákina, sagðar skákfréttir frá viðburðum hér heima og erlendis, spáð í spilin um hver verður næsti heimsmeistari í skák, spilað hljóðbrot þar sem Magnus Carlsen syngur rapplag sem kallast Hvem Stjal Spenolen eða Hver stal andlitskreminu með rapparanum Mr. Pimp-Lotion og margt fleira. Sjá slóð: Magnus Carlsen is Singing His Rap Song!


    Stóra spurningin sem ekki náðist að svara í þættinum er: Verður Hans Moke Niemann umdeildasti skákmaður heims með á Reykjavíkurskákmótinu 2024? Það kemur í ljós í kvöld eða á morgun en á meðan við bíðum...Chess speaks for itself!

  • Landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson, núverandi Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák og Hilmir Freyr Heimisson, alþjóðlegur meistari og núverandi Íslandsmeistari í atskák kíktu aðra vikuna í röð í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Þeir félagarnir tóku upp þráðinn frá því sem frá var horfið í síðasta þætti og ræddu meðal annars mikla og góða samvinnu þeirra við stúderingar en einnig innbyrðis "stríð" þeirra við skákborðið. Það kom fram í máli þeirra að þeir þekktu hvorn annan svo vel að skákir þeirra væru farnar að þróast í eins konar jafnteflismaraþon þeirra á milli, þeir væru í raun bestu óvinir! Langar skákir, tvöfaldar umferðir í svokölluðum túrbómótum og þreyta kom til tals og hversu mikilvægt það væri að sofa vel, borða rétt og stunda líkamsrækt reglulega. Þeir segja að það sé mjög gaman að sjá, að það sé kominn svo mikill metnaður hjá ungu skákmönnunum í dag. Þessi metnaður hafi ekki verið til staðar fyrir nokkrum árum þegar þeir voru að alast upp en nú séu flest allir að stúdera margar klukkustundir á dag. Menn séu einbeittir, haldi sér við efnið, taki alvöru æfingarnar og engin tími gefist fyrir fíflalæti. Vignir og Heimir fóru yfir helstu mót sem þeir ætla að taka þátt í á árinu og markmið sem þeir hafa sett sér á næstu tveimur árum. Vignir sagði að hann hefði rætt við hinn umdeilda og nú heimsþekkta Hans Moke Niemann í vikunni og að Niemann væri að velta fyrir sér að taka þátt í Reykjavíkurskákmótinu sem hefst í Hörpu í næsta mánuði.

  • Landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson, nýjasti og yngsti stórmeistari okkar Íslendinga og núverandi Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák og Hilmir Freyr Heimisson, alþjóðlegur meistari og núverandi Íslandsmeistari í atskák kíktu í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Vignir fagnar 21 árs afmælisdegi sínum í dag, 7. febrúar en Heimir verður 23 ára síðar á árinu. Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson var í pólitísku viðtali á útvarpsstöðinni í þættinum á undan og því lá beinast við að fá hann til að segja nokkur orð í upphafi þáttar og spyrja hann hvaða ráðleggingar hann hefði fyrir ungu landsliðsmennina. Ekki stóð á svörum frá Helga: "Fimm ára planið!" Helgi segir að þeir séu báðir öflugir skákmenn. Vignir sé stórkostlega hæfileikaríkur skákmaður og það sé mjög erfitt að eiga við hann við skákborðið. Hilmir sé mjög hugmyndaríkur skákmaður og baráttumaður. Helgi segir það mjög jákvætt við þá báða að þeir séu að leggja á sig mikla vinnu til að ná árangri. Hann er bjartsýnn á að þeir muni verða atvinnumenn í skák og nái að finna leiðir til að lifa af skáklistinni og að þeirra sé framtíðin. Þeir Vignir Vatnar og Heimir Freyr fóru síðan um víðan völl í mjög skemmtilegu viðtali. Þeir hafa frá mörgu að segja og stefna á að mæta í framhaldsþátt í næstu viku.

  • CAD-bræðurnir (Chess After Dark) Birkir Karl Sigurðsson forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Heimkaupum og Leifur Þorsteinsson viðskiptastjóri hjá Creditinfo eru gestir Kristjáns Arnar Elíassonar að þessu sinni. Þeir eru báðir skákmenn frá barnsaldri, skákþjálfarar og hafa verið öflugir mótshaldarar undanfarið eitt og hálft ár. Þeir hafa meðal annars skipulagt og stjórnað mótum eins og Bankinn Bistro mótaröðinni þar sem há peningaverðlaun voru í boði, Íslandsmótinu í Fischer-slembiskák, Íslandsmótinu í Atskák sem haldið var á Selfossi, Arena mótaröðinni, hraðskákmóti á Ölveri í Glæsibæi og Sykursalnum. Ekki má gleyma Blush mótinu skemmtilega þar sem vinningshafar voru leystir út með miklu magni af vörum þessarar verslunar hjálpartækja ástarlífsins. Mótið gekk "smurt" fyrir sig eins og Róbert Lagerman skákstjóri hafði lofað fyrir keppni og voru pokar verðlaunahafa í lok móts stútfullir af smokkum, titrurum og gjafabréfum í verslunina.

    Hlaðvarpsþættir þeirra félaga, Chess After Dark, eru orðnir 153 að tölu og er hlaðvarpið orðið eitt stærsta og vinsælasta hlaðvarp landsins.

  • Þátturinn Við skákborðið er að þessu sinni tvöfalt lengri en vanalega. Gestir Kristjáns Arnar Elíassonar eru báðir fyrir löngu orðnir þjóðþekktir menn. Friðrik Ólafsson er fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák og var einn allra sterkasti skákmaður heims á sínum tíma. Hann er fyrrverandi forseti Alþjóðaskáksambandsins FIDE og fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis og því æðsti embættismaður þess. Guðmundur G. Þórarinsson er verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður. Hann var forseti Skáksambands Íslands þegar skákeinvígi aldarinnar var haldið í Laugardalshöll árið 1972 á milli þeirra Spasskís og Fischers.

    Efni þessa þáttar er fyrst og fremst skákin, eðli hennar og uppruni. Þróun skáklistarinnar og byltingarkenndar breytingar og kannski síðast en ekki síst þróun mannlegrar hugsunar. En hvað er skák og hvar er hún upprunnin? Kristján Örn dró sig að mestu í hlé og bað þá Friðrik og Guðmund um að taka spjall og skyggnast inní þessa hulinsheima listagyðjunnar. Í lok þáttarins syngur 7. heimsmeistarinn í skák (1957-1958), Vasily Smyslov lagið Stenka Razin (Volga, Volga) ásamt karlakórnum í Tilburg ("La Renaissance"). Skákborðið, platan og Staunton taflmennirnir á myndinni á milli þeirra Guðmundar og Friðriks er gjöf til Friðriks frá kúbanska byltingarleiðtoganum Fidel Castro eftir Ólympíuskákmótið í Havana á Kúbu árið 1966.